146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar spurningar. Hún spurði um sameiningar háskóla. Sjálf hef ég verið þeirrar skoðunar að samstarf háskóla í öllu falli sé mjög mikilvægt og ég kom til að mynda á verkefni á sínum tíma í ráðuneyti menntamála sem var samstarfsnet hinna opinberu háskóla. Hugsunin á bak við það var að gera allt samstarf auðveldara og þar með að leggja í raun og veru upp með að auðveldara væri fyrir þessa skóla að kenna t.d. saman, halda saman utan um kennslu í námsgreinum í ljósi þess að við erum með sjö háskólastofnanir sem sumar hverjar kenna sömu fögin. Ég vil meina að það hafi verið mjög góð reynsla af þessu samstarfsneti þótt hún hafi ekki orðið í fyrstu, þ.e. fólk hafði áhyggjur af að þetta tæki of langan tíma og annað slíkt. En það sem mér hefur verið tjáð a.m.k. seinna meir er að fólk telji þetta hafa verið mikilvægan grunn að auknu samstarfi, hafa skapað tækifæri og leitt til aukinnar hagræðingar að sumu leyti, t.d. í stoðþjónustu, þegar kemur að tölvukerfum og öðru slíku.

Þá komum við að því sem hv. þingmaður nefndi einnig. Þegar við berum okkur saman við Svíþjóð er samræming og samstarf þar miklu meira, t.d. þegar kemur að innritun nemenda. Ég hef orðað þá hugsun þegar ég hef átt þess kost að eiga samtöl við háskólafólk á undanförnum árum að mjög mikilvægt sé að stjórnvöld og háskólasamfélagið eigi ákveðið samtal um það hvaða skipulag við sjáum á aðgangi nemenda t.d. í ákveðnar greinar, á ákveðin fræðasvið. Í Svíþjóð er til að mynda ákveðinn fjöldi nemenda á tilteknum sviðum. Það er ekki algerlega óheft eftir vilja nemenda. En þetta er viðkvæm spurning. Stóra málið í því tel ég vera að ef einhverjar slíkar breytingar verða, verða þær að vera í mjög góðu samstarfi. Þetta getur aldrei orðið einhliða ákvörðun stjórnvalda.