146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:52]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég er að mörgu leyti sammála því sem kom fram í svari hv. þingmanns. En ég held að það verði óhjákvæmilegt að líta, líka í samvinnu við háskólana, til frekari og markvissari samvinnu og ekki síður sameininga, eins og m.a. erlendir ráðgjafar lögðu til árið 2009 í svonefndri Taxell-skýrslu.

Ég vil líka taka undir það sem kom fram í ræðu hv. þingmanns áðan og fagna sérstaklega áherslu á Listaháskóla Íslands. Ég held að það sé gríðarlega mikilvægt að málefni Listaháskólans sem er ótrúlega verðmætur í íslenskri háskólaflóru verði tekin enn fastari tökum en hefur verið gert á umliðnum árum og fagna því sérstaklega.

Ég er komin núna að mínu seinna erindi, varðandi vinnubrögðin. Mér finnst, eins og ég kom að áðan, gaman og áhugavert og ákveðin lífsreynsla að sjá hvernig þingið vinnur núna saman í gegnum fjárlögin og hvernig fjárlaganefnd hefur með miklum sóma unnið að því og flokkarnir hafa gefið ákveðinn afslátt af sínum sérkennum til þess að koma fjárlagafrumvarpinu í gegn með ábyrgum hætti. Það er að vissu leyti ákveðin nýlunda. Mig langar til að sjá framhald á svona vinnubrögðum, á því að þingið tali meira saman. Mig langar að spyrja hv. þingmann sem er hokin af reynslu þrátt fyrir ungan aldur: Ef hún fer í ríkisstjórn, við vitum náttúrlega ekkert hvernig þær aðstæður eru í dag, hvernig sér hún nýja ríkisstjórn vera í samvinnu og samstarfi við þingið? Hvernig sér hv. þingmaður það ná fram að ganga að breyta vinnubrögðum bæði innan þings en líka í samstarfi framkvæmdarvalds og löggjafarvalds?