146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[15:57]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F):

Hæstv. forseti. Við ræðum frumvarp til fjárlaga fyrir árið 2017 en áður en ég held áfram máli mínu langar mig að þakka hv. þingmönnum í fjárlaganefnd fyrir þá miklu vinnu sem þeir hafa lagt á sig undanfarna daga til að landa þessu stóra máli. Tíminn hefur verið afar skammur til þessa verks en ástæðu þess þekkjum við.

Í fyrsta lagi langar mig að nefna að í frumvarpinu fyrir árið 2017 er áfram byggt á þeim grunni sem lagður hefur verið með hallalausum fjárlögum undanfarin þrjú ár. Afkoma ríkissjóðs hefur batnað ár frá ári eftir að sjálfvirk skuldasöfnun var stöðvuð með fjárlögum ársins 2014 og er fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017 það fjórða í röð þar sem gert er ráð fyrir hallalausum rekstri ríkissjóðs. Undanfarið hefur verið unnið að því að greiða niður skuldir ríkissjóðs og þannig lækka þær afborganir sem ríkið þarf að standa straum af á ári hverju. Það skiptir gríðarlega miklu máli að ná niður skuldum ríkisins til að búa til svigrúm fyrir meiri innviðauppbyggingu og þar má m.a. nefna heilbrigðiskerfið, velferðarkerfið, menntakerfið og samgöngukerfið. Við getum vel deilt um hvort fara hefði átt hægar í að borga niður skuldir og setja meira inn í innviði landsins. Það var þó stefnan að borga hratt niður skuldir, skila hallalausum fjárlögum, ná stöðugleika og viðhalda honum en gleymum því þó ekki að samt sem áður var forgangsraðað til heilbrigðis- og velferðarmála á síðasta kjörtímabili.

Virðulegur forseti. Mig langar í þessari stuttu ræðu minni að ræða nokkur atriði sem hv. fjárlaganefnd hefur unnið að í störfum sínum undanfarna daga. Ég ætla að byrja á að ræða útgjöld til heilbrigðismála en eins og ég sagði að framan var forgangsraðað til heilbrigðismála síðasta kjörtímabil. Hins vegar var fjárþörfin orðin gríðarlega mikil inn í kerfið eftir langvarandi niðurskurð til fjölda ára. Þá er ég ekki að skella skuldinni á einn eða neinn en þetta hafði verið svona til fjölda ára. Það er því þannig að þrátt fyrir að forgangsraðað hafi verið til heilbrigðismála er þörfin enn til staðar.

Eins og ég segi hefur stærstur hluti af því fjármagni sem farið hefur til heilbrigðismála runnið til Landspítala enda stór og mikilvæg stofnun sem sinnir stóru og miklu hlutverki. Það er samt svo að horfa þarf á kerfið í heild sinni og þá þörf og það hlutverk sem landsbyggðarheilbrigðisstofnanir hafa að gegna og hvaða hlutverki hjúkrunarheimili víða um landið hafa að gegna og horfa á málið í samhengi. Það er nauðsynlegur hluti af því að létta álaginu af Landspítalanum að gefa meira til landsbyggðarstofnana og hjúkrunarheimila víða um landið og vinna m.a. þannig að þeim fráflæðisvanda sem er til staðar á Landspítalanum.

Í breytingartillögum fjárlaganefndar er gefið í þau útgjöld fjárlaga 2017 sem ætluð eru til heilbrigðismála og er það vel gert. Reyndar kemur það einnig fram í frumvarpi til fjáraukalaga að verið sé að horfa á kerfið í heild sinni. Verið er að styrkja hjúkrunarheimili, auka í til Landspítala, heilbrigðisstofnana á landsbyggðinni og einnig er verið að klippa rekstrarhalla af ákveðnum stofnunum. Ég ætla þó að fagna því verulega núna að í þessum breytingartillögum er fjármagn til að fara loksins í 1. áfanga í breytingum á hjúkrunarheimilinu í Stykkishólmi. Til lengri tíma mun það hafa afar jákvæð áhrif á rekstur stofnunarinnar og einnig jákvæð áhrif á mönnun deilda og auk þess mun betri áhrif á aðstöðu heimilismanna og starfsmanna.

Öll viljum við hafa gott heilbrigðiskerfi og viljum því hið besta. Við viljum öll bæta kerfið. Í þessu samhengi langar mig að minnast á mikilvægi þess að stefnumótun eigi sér stað í heilbrigðismálum. Þar þarf að horfa til landsins alls, skilgreina hvaða þjónustu eigi að veita á Landspítala, hvaða þjónustu eigi að veita hjá sérfræðingum úti í bæ og hvaða þjónustu eigi að veita á heilbrigðisstofnunum á landsbyggðinni. Í þessari stefnumótun skal horfa til aldurssamsetningar íbúa, fjarlægðar, samgangna og ýmissa annarra þátta. Slíka vinnu ætti að vinna í samráði við þá sem vinna í greininni og þekkja til aðstæðna. Auk þessa væri æskilegt að setja inn í heilbrigðisáætlun hvernig stjórnir heilbrigðisstofnana væru skipaðar, þ.e. að hver starfsstöð hafi fulltrúa í stjórn stofnunarinnar.

Ég vil líka lýsa ánægju minni með að fjármagn sé sett í greiðsluþátttöku sjúklinga. Ég starfaði í hv. velferðarnefnd á síðasta kjörtímabili en það mál fór í gegnum nefndina og þingið. Innan nefndarinnar átti sér stað gríðarlega mikil samvinna að því að finna lausn á málinu. Allir nefndarmenn lögðu mikið á sig til að finna lausnina. Þetta eru mikilvæg skref sem stigin voru, að enginn borgi meira en 50.000 á ári fyrir læknisþjónustu og hér erum við að koma til móts við þá langveiku og alvarlega veiku sjúklinga sem margir hverjir hafa þurft að glíma við háan kostnað vegna veikinda. Eins og ég segi eru þetta mikilvæg fyrstu skref og í framtíðinni er vert að setja fleiri þætti heilbrigðisþjónustunnar undir greiðsluþátttökuna, eins og sálfræðikostnað, tannlækningar og aukinn kostnað við ferðir sjúklinga til læknis, sérstaklega til þeirra sem þurfa að fara um langan veg og margar ferðir á ári.

Frú forseti. Næst langar mig að ræða örlítið um samgöngumálin. Ég verð að fagna því að hv. fjárlaganefnd náði Dýrafjarðargöngum til baka inn í fjárlög. Afar mikilvægt var að ná þeim inn í fjárlögin því að miklar vonir eru bundnar við þau áhrif sem göngin munu hafa, m.a. á atvinnulíf á fjörðunum. Það var því mikið reiðarslag þegar kom í ljós að eingöngu var gert ráð fyrir 300 milljónum í verkefnið á næsta ári en þetta hefur verið lagfært og eiga nefndarmenn í öllum flokkum miklar þakkir skildar fyrir verkefnið. Auk þessa er Skagastrandarvegur í fjárlögum fyrir næsta ár og fagna ég því jafnframt, auk allra samgöngubóta sem settar eru inn í breytingartillögur hv. fjárlaganefndar, en auðvitað viðurkennir maður að við hefðum gjarnan viljað sjá aukið fjármagn — meira, hver vill það ekki? — eins og t.d. í tengivegi en þetta er niðurstaðan og ég get þakkað enn og aftur fyrir það.

Mig langar að ræða framlög til menntamála en undanfarin ár hefur verið farið í talsverðar breytingar á menntakerfinu okkar, m.a. með styttingu framhaldsnáms. Auk þess hefur fjármagn verið aukið á hvern nemanda í framhaldsskólum landsins en við þurfum að halda áfram að auka við þannig að við náum þeim viðmiðum sem við viljum bera okkur saman við, OECD og síðar meir Norðurlöndin.

Í breytingartillögum hv. fjárlaganefndar er verið að setja talsvert fjármagn inn í skólana. Verið er að auka fjármagn inn í verknámsskóla, m.a. til tækjakaupa, og auk þessa er verið að setja inn fjármagn til Háskólans á Bifröst, en sá skóli hefur átt við rekstrarörðugleika að stríða undanfarin ár og verið er að styrkja stöðu hans með aukainnspýtingu. Það skiptir sveitarfélagið gríðarlegu máli og það öfluga starf sem unnið er á Bifröst, bæði í staðnámi og fjarnámi, og mun eflaust hafa áfram þau jákvæðu áhrif á sveitarfélagið og það starf sem unnið er á Bifröst.

Jafnframt er verið að auka fjármagn til Hóla og er það vegna fráveitumála.

Virðulegur forseti. Aukið fjármagn er sett í löggæslumálin og það er ánægjulegt því að tryggja þarf lögreglu nægilega góð starfsskilyrði til að hún geti sinnt þeim fjölmörgu verkefnum sem að henni snúa um land allt allan ársins hring. Drög að nýrri löggæsluáætlun fyrir Ísland liggur fyrir þar sem tekið er á öryggisstigi, þjónustustigi, mannaflaþörf og fjárveitingum en ljúka þarf gerð þessarar löggæsluáætlunar án tafar, vinna í samræmi við hana og gera þarf ráð fyrir niðurstöðum löggæsluáætlunar í ríkisfjármálaáætlun næstu ríkisstjórnar.

Auk þessa verð ég að minnast á ákveðið verkefni sem sinnt er í Gamla sjúkrahúsinu á Ísafirði. Þetta verkefni er undir fjárlagaliðnum Þjóðskjalasafn en samkvæmt fjárlögum fyrir árið 2017 eru útgjöld til safnsins rúmum 26 milljónum hærri í ár en þau voru síðasta ár. Ég vona að Þjóðskjalasafnið haldi því mikilvæga starfi áfram sem sinnt er á Ísafirði og hafi byggðasjónarmið í huga við úthlutun fjármuna og verkefna sem sinnt er frá safninu.

Auk þessa get ég ekki lokið máli mínu án þess að ræða þætti sem eru inni í fjárlögum fyrir árið 2017. Auknar húsnæðisbætur, framlag til uppbyggingar á almennum leiguíbúðum og verulega aukið fjármagn til almannatrygginga. Þar eru settir inn verulegir fjármunir til að hækka laun eldri borgara sem eru með heimilisuppbót upp í 280 þús. kr. um áramótin og 300 þús. kr. um þarnæstu áramót. Þessi hækkun er í samræmi við lægstu laun og sama má segja um öryrkja sem eru með sérstaka framfærsluuppbót, þeir fá sömu hækkun. Ég verð þó að geta þess í þessari ræðu að nýsamþykktar kerfisbreytingar ná eingöngu til aldraðra og það þýðir frítekjumörk allra tekna upp á 25 þús. kr. á mánuði og á móti er krónu á móti krónu skerðingu hætt, launaflokkar almannatrygginga sameinaðir og ein skerðingarprósenta á móti. Þessi kerfisbreyting á sér ekki stað hjá öryrkjum því að ekki náðist sátt um það milli Öryrkjabandalagsins og ríkisins. Vona ég að sú sátt náist sem fyrst svo mikilvægar kerfisbreytingar nái fram að ganga hjá öryrkjum eins og öldruðum. Það þarf þó að vera sátt um þær milli aðila og ríkja traust. En á meðan þær kerfisbreytingar hafa ekki farið í gegn halda öryrkjar sömu frítekjumörkum og hafa verið en halda þarf áfram að gefa í málaflokkinn, eins og gert er nú og gert hefur verið allt síðasta kjörtímabil.

Að lokum vil ég segja að við Framsóknarmenn viljum fara í kerfisbreytingar í skattamálum og því sem snýr að barnabótum og vaxtabótum. Við töluðum fyrir því í kosningabaráttunni sem fram fór fyrir stuttu. Hins vegar þurfa þær kerfisbreytingar tíma og eins og við töluðum um í kosningabaráttunni þarf að stofna samráðshóp sérfræðinga sem útfærir tillögurnar og teljum við það skynsamlega leið til að vinna málið vel og á heildstæðan hátt. Tillögurnar snúa að minni álögum á millistétt, að þeir sem miklar hafa tekjurnar borgi hærri skatta og að barnabætur verði stórauknar og séu eyrnamerktar börnunum en ekki foreldrum.

Þessi vinna þarf að fara í gegnum ákveðið ferli áður en settar eru fram tillögur um það hér í þinglegri meðferð og vinna málið á heildstæðan hátt í samvinnu við sérfræðinga.

En nú fer ég að ljúka máli mínu, eins og ég sagði hér að ofan vil ég þakka hv. þingmönnum í fjárlaganefnd fyrir þeirra miklu vinnu. Ég veit að um málamiðlunarfjárlög er að ræða. Allir þurftu að gefa eitthvað eftir en þetta eru fjárlög sem eru unnin við sérstakar aðstæður. Það er starfsstjórn sem leggur fjárlagafrumvarpið fram og því enginn eiginlegur meiri hluti á þingi. Því ber að fagna að það hafi tekist og eiga allir hv. nefndarmenn þakkir skildar. Samvinnustefnan borgar sig oft og tíðum og hún getur svo sannarlega skilað árangri.