146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:37]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir mjög góða ræðu. Ég get tekið undir það að fjárlögin eru mun betri eftir að samkomulag náðist um að bæta í á ýmsum mikilvægum stöðum. Mig langar samt að spyrja þingmanninn af því að ég upplifi það og hef heyrt frá öðrum þingmönnum, sér í lagi nýjum þingmönnum, að þeim finnst mjög óþægilegt hvað við erum að taka óupplýstar ákvarðanir. Ég óttast mjög að þarna vanti liði. Það er t.d. hvorki gert ráð fyrir nægilegu fjármagni til kvótaflóttamanna né virðist vera nein almennileg stefna um hversu mörgum við ætlum að taka á móti. Það hefur borist neyðarkall frá fjöldamörgum stofnunum og aðilum sem hafa unnið að því að gera samfélag okkar betra fyrir viðkvæmustu hópana okkar.

Mig langar þar af leiðandi að spyrja hv. þingmann hvernig hægt sé að leiðrétta þau mistök sem er vitað að eru nú þegar í þessum fjárlögum út af hraðanum. Það hefur náttúrlega aldrei gerst nema kannski fyrir einhverjum áratugum síðan að fjárlögum hafi verið hraðað svo í gegnum Alþingi að ekki vinnist tími til þess að taka á móti ábendingum á formlegan hátt eða taka á móti gestum og fá ábendingar um hvað mætti betur fara, hvað þá fara almennilega yfir það í nefndinni.