146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:41]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Ég þakka fyrir svarið. Auðvitað vonar maður einlæglega að ný ríkisstjórn muni bæta og laga það sem augljóslega hefur farið mjög aflaga í þeim fjárlögum sem hér koma fram. Því miður er það reynsla mín á þingi að vonin fleytir manni ekki langt, því oft hefur maður orðið fyrir djúpstæðum vonbrigðum með hvað fyrirheitin sem oft eru notuð í aðdraganda kosninga virðast gleymast fljótt. Ég hef t.d. mjög miklar áhyggjur af stöðu margra eldri borgara og öryrkja. Við höfum fengið áköll frá þessum hópum um að gera ákveðnar lagfæringar, en það virðist ekki hafa tekist að bregðast við því ákalli núna. Ég óttast mjög út af hraðanum sem er á fjárlagafrumvarpinu sem og fjáraukalögum að það muni líða of langur tími þangað til brugðist verður við ákallinu frá þessum hópum.

Nú er það líka þannig að ekki tókst að ná samkomulagi um tekjuöflun af því að ekki er nægur tími og því borið við að ekki sé hægt að fara í slíkar aðgerðir þegar svo stuttur tími er fram að áramótum. En auðvitað er hægt að fara í þannig aðgerðir og leggja til að þær taki gildi síðar.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hún telji að verið sé að nota nákvæmlega sama orðalag og alltaf er gert hérna, það sé verið að fara einhvern veginn fram hjá sannleikanum til þess að koma sér undan því að segja hlutina eins og þeir eru. Það kom mér verulega á óvart að sjá viðhorfin sem kristölluðust í umræðunni um fjáröflunina áðan eða tekjuöflunarleiðir. Mig langar því að spyrja hv. þingmann hvað hún telji að (Forseti hringir.) hægt sé að gera til þess að ná meiri árangri en bara að vona að fólk hagi sér í (Forseti hringir.) þágu þjóðar eftir áramót.