146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:45]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Þegar ég stíg í ræðustól Alþingis hinu fyrsta sinni erum við komin langt á veg í umfjöllun um fjárlagafrumvarpið fyrir árið 2017. Það kveður við kunnuglegan tón í umræðunni, það vantar fé til ýmissa stórra og smárra verkefna. Nú háttar svo til, eins og komið hefur fram, að fjárlagafrumvarp er kynnt við óvenjulegar aðstæður og það að samþykkja fjárlög fyrir komandi ár er því talsverð prófraun fyrir kjörna fulltrúa á Alþingi.

Velferðarmálin eru og hafa verið eitt af aðalsmerkjum okkar jafnaðarmanna, umbætur fyrir almenna borgara. Það á vitaskuld við um fleiri stjórnmálaflokka sem eiga það sammerkt að fyrir síðustu kosningar lofuðu þeir allir að hefja nýtt tímabil aukinnar uppbyggingar á innviðum samfélagsins, ekki síst í mennta- og heilbrigðismálum. Því verður ekki neitað að heilbrigðisþjónustan hefur látið á sjá undanfarin ár og við höfum enn ekki náð vopnum okkar eftir efnahagshrun. Þó hefur verið leitast við að styrkja rekstur helstu stofnana. Ekki síst hefur verið litið til Landspítala sem er mikilvægasta heilbrigðisstofnun landsins sem við treystum mjög á. Þar starfar fólk af gríðarlegum metnaði við stöðugt uppbyggingarstarf, en oft við þrengri kost en það sjálft kýs. Við stefnumótun ber að hafa í huga að heilbrigðismál eru afar flókin og margsamsett og það að skilja gangverk stórra stofnana eins og Landspítalans er ekki heiglum hent.

Virðulegur forseti. Í nýlegri skýrslu sem unnin var fyrir atbeina velferðarráðuneytis og birt í september sl., oft kennd við McKinsey, var lagt mat á nokkra þætti íslenskrar heilbrigðisþjónustu og kastljósinu beint að Landspítala, rekstrarhagkvæmni, framleiðni, kostnaðarlegum þáttum í samanburði við erlend sjúkrahús o.fl. Hv. þm. Silja Dögg Gunnarsdóttir drap á efni skýrslunnar fyrr í umræðunni. Í stuttu máli kom í ljós að Landspítalinn stóð af sér þyngsta erfiðleikatímabilið frá árinu 2008, bæði hvað varðar gæði þjónustunnar og starfsemi almennt, og þar unnu starfsmenn þrekvirki — en það reyndi verulega á. Þá er í skýrslunni einnig dregið fram að reksturinn sé síður en svo óhagkvæmari en á sænskum samanburðarsjúkrahúsum. Í skýrslunni er einnig bent á atriði sem betur mættu fara í starfseminni og með hagkvæmari hætti, jafnvel fyrir kerfið í heild. Þar má nefna samsetningu í starfsmannahaldi, göngudeildarstarfsemi spítalans, hvernig staðið er að útskriftum, framlegð og samskipti við aðrar stofnanir í heilbrigðiskerfinu, verkefni sem eru auðvitað sífelld viðfangsefni stjórnenda.

Það sem þó er undirstrikað í samantekt McKinsey, og mér finnst standa upp úr og vera leiðarstef, er það álit skýrsluhöfunda að stefnumótun skorti fyrir Landspítala og íslenska heilbrigðisþjónustu sem eina heild. Sú vinna mun þó vera hafin í ráðuneyti. Það heilræði er gefið í skýrslunni að nú, þegar sjái til sólar í hagkerfi okkar, sé brýnt að setja sér stefnu áður en farið er að veita fé í auknum mæli og með ómarkvissum hætti inn í heilbrigðiskerfið að nýju. Þarna liggur hin stóra áskorun fyrir landið allt og þar er hlutverk Landspítala mikilvægt því að þetta er þjóðarsjúkrahús sem gegnir hlutverki sínu vel en í ljósi nýrra tíma, nýrrar tækni, er þörf á nýjum skilgreiningum sem svara kalli tímans. Vandað og gegnsætt kostnaðarmat, kostnaðargreining fyrir allar heilbrigðisstofnanir, er hluti af brýnum umbótum. Enginn fer í grafgötur um — og það vil ég undirstrika — að Landspítalinn býr nú við þrengri fjárhag en stjórnendur telja ásættanlegt og gefa jafnvel til kynna að hætta sé á að spítalinn geti ekki að óbreyttu gegnt sínu lögbundna hlutverki. Orð stjórnenda eru tekin alvarlega en niðurstaða fjárlagafrumvarps endurspeglar getu Alþingis til að bæta rekstrarumhverfi Landspítala. Baráttumál Samfylkingarinnar í þessum efnum náðu ekki fram að ganga nema að hluta. Til þess hefði þurft að bæta við meiri fjármunum til starfsemi Landspítalans og annarra heilbrigðisstofnana.

Heilbrigðisþjónusta er veitt víðar á Íslandi en á Landspítala, því megum við ekki gleyma. Við eigum vel búnar heilbrigðisstofnanir í öllum landsfjórðungum sem hafa búið við erfiðan niðurskurð á síðustu árum, síst minni en Landspítali. Þær bera harm sinn flestar í hljóði en eru gríðarlega mikilvægar einingar í sínu héraði og vinna að fjölbreytilegum og mikilvægum verkefnum en erfiðleikar þeirra rata síður í eyru fjöldans. Tengsl þessara stofnana við tvö sjúkrahús landsins, Landspítala og varasjúkrahús Íslands, Sjúkrahúsið á Akureyri, er þeim lífsspursmál og McKinsey-skýrslan bendir á að formgera ætti þau tengsl og samstarf með skýrum hætti.

Þá er einn af allra mikilvægustu þáttum heilbrigðisþjónustunnar ótalinn sem er grunnþjónustan, heilsugæslan sem við ættum raunar að gefa meira rými í umræðunni. Þessi mikilvægi hlekkur á að vera styrkasta stoð heilbrigðisþjónustunnar í landinu en stendur því miður höllum fæti, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Fullvissa er um að mikill vilji er af hálfu heilbrigðisráðherra að byggja upp heilsugæsluna að nýju. Sú endursköpun kostar ný úrræði og aukna fjármuni. Starfið í heilsugæslu er í senn ábyrgðarmikið og gefandi, þar eiga sér stað breytingar og þróun í verklagi og vinnubrögðum og vaxandi flóra fagfólks myndar öflug teymi í starfi sínu. Markmiðið er að í heilsugæslunni geti hver fjölskylda í nærumhverfi sínu fengið góða úrlausn á sínum almenna heilsufarsvanda, hvort sem er til sálar eða líkama. Forvarnastarf og mikilvæg lýðheilsuverkefni eru meðal þess sem heilsugæslan beitir sér fyrir en það eru þeir þættir sem ráða e.t.v. mestu um það hvernig okkur reiðir af heilsufarslega þegar til lengdar lætur. Góð heilsugæsla og skólar ráða líka talsverðu um búsetu fólks og jafnvel hvernig byggð þróast í okkar ágæta landi sem við höfum fylgst með rísa af krafti úr fjárhagslegum öldudal.

Já, virðulegur forseti, við ræðum gjarnan af miklum tilfinningahita um heilbrigðismál og það er ekki óeðlilegt. Þetta er málaflokkur sem hittir okkur öll beint í hjartastað, stundum í orðsins fyllstu merkingu. Þetta tengist grunnstoðum tilverunnar, lífinu sjálfu, og nú eygjum við tækifæri með nýrri ríkisstjórn til að sækja fram og bæta það sem miður hefur farið í heilbrigðismálum, marka skynsamlega stefnu og auka fjárframlög.

Íslenskt samfélag hefur getu til að búa betur að mikilvægum velferðarmálum. Við höfum nefnilega búið við einstaka efnahagslega velsæld um skeið eftir undangengin stóráföll. Sjávarútvegur hefur gengið fádæma vel og útgerð dafnað og skilar fyrirtækjum góðum arði. Ferðaþjónusta þenst taumlítið út, en aflar verulegra tekna. Vel á aðra milljón gesta koma til landsins allt árið. Gistirými er þannig um jól og áramót víða uppurið. Verslun og viðskipti blómstra og verklegar framkvæmdir aukast stig af stigi og mikil eftirspurn er eftir fólki, íslenskar hendur duga ekki til. Eðlilega er spurt í bland hvort þessi þjóð sé ekki hamingjusöm og glöð, hvort allir uni sér ekki vel og hafi nóg fyrir sig, að barnafjölskyldur búi við farsæld og öryggi, uppeldis- og skólastofnanir blómstri í starfi sínu, búið sé með sóma að þeim sem lokið hafa löngum starfsdegi, öryrkjar fái að halda mannvirðingu sinni með viðunandi afkomu, löggæsla sé trygg og örugg og aðrir opinberir innviðir, samgöngumannvirki og heilbrigðisþjónusta, viðunandi eða jafnvel framúrskarandi.

Virðulegur forseti. Því miður finnast fúnar spýtur allt of víða, eins og kom nöturlega fram í skýrslu Barnaheilla sem kynnt var fyrir viku. Fjöldi Íslendinga býr við skort. Það er dökkur blettur á íslensku samfélagi að landsmenn þurfi í þúsunda tali reglulega að leita á náðir hjálparstofnana til að afla sér matar, ekki bara fyrir jól. Látum það ekki hverfa úr hugskoti okkar að yfir 6.000 börn á Íslandi búa við fátækt og enn fleiri eru talin vera í áhættuhópi. Það eru m.a. þessi börn sem taka munu þátt í að móta samfélagið í framtíðinni — og hvað ætli þeim finnist um réttlætið?

Virðulegur forseti. Við sitjum 63 þingmenn á Alþingi. Það ættu ekki einu sinni að finnast 63 fátæk börn á öllu Íslandi. Það ættu engin börn að vera fátæk á Íslandi og það er á þessum vettvangi, á Alþingi Íslendinga, sem við getum breytt, bætt kjör og aðbúnað þeirra sem búa við skarðan hlut. Um það gáfum við loforð fyrir kosningar, allir stjórnmálaflokkar. Þetta er hægt, við höfum efni á því og á það skulum við einblína og sameinast um á kjörtímabilinu sem er fram undan, að stuðla að auknu réttlæti og sanngirni fyrir alla okkar þegna.