146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[16:59]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að bæta aðeins í ágæta umræðu um fjárlög fyrir árið 2017 og ræða sérstaklega um þessa óvenjulegu stöðu sem við erum í, að bæði erum við að leggja fram fjárlög sem starfsstjórn leggur fram með mjög stuttum fyrirvara, talað er um embættismannafjárlög, þ.e. að miklu leyti strípuð fjárlög miðað við fjármálastefnu fráfarandi ríkisstjórnar. Þingið hefur haft sérstaklega stuttan tíma til að vinna með þessi fjárlög og í raun miklu minni aðkomu að fjárlagagerðinni en við erum vön.

Á sama tíma höfum við verið með þing án skýrs meiri hluta, þ.e. ekki hefur verið skilgreind stjórn og stjórnarandstaða. Við sjáum það helst í því að nefndarálitin sex eru öll minnihlutanefndarálit. Þar af leiðandi hafa allir flokkarnir sjö á þingi og allir fulltrúarnir í fjárlaganefnd þurft að koma sér saman um breytingartillögur á fjárlögunum og fallast á málamiðlun, finna lausn sem enginn er himinsæll með, en allir geta nokkurn veginn sætt sig við. Ótrúlegt en satt erum við komin hingað 22. desember og komin í 2. umr. um fjárlögin. Þetta er að mörgu leyti sögulegt.

Mig langar aðeins að tala um þetta út frá því að með nýjum lögum um opinber fjármál og þeirri nýju aðferðafræði með fjármálaáætlun til nokkurra ára fram í tímann erum við að brjóta í blað í fjárlagaumhverfi íslenska ríkisins og í íslenskri pólitík. Ég þekki þetta ágætlega úr sveitarstjórnarmálunum þar sem þau ár sem ég starfaði í borgarstjórn Reykjavíkur vorum við að feta vinnu eftir nýjum sveitarstjórnarlögum og fjármálareglum þar sem verið var að kalla eftir miklu skýrari og stífari áætlunargerð og undirbúningi í vinnunni og í fyrsta skiptið verið að setja þá skyldu á sveitarfélögin að leggja fram þriggja og fimm ára áætlanir.

Það sem við sjáum núna í fjárlagavinnunni sem við höfum kannski, ég hef alla vega heyrt það á sumum ræðumönnum hér í dag, verið fullfljót að eigna skömmum tíma og því að ekki væri skýr meiri hluti, en við sjáum afleiðingar þeirra vinnubragða í því að fjárlaganefnd og störf þingsins í nokkrar vikur eða mánuði fyrir lokaumræðu um fjárlög hafa minni áhrif á uppbyggingu fjárlaga og þá stefnumörkun sem felst í fjárlögunum. Fjárlögin eru á endanum einhver skýrasta stefnumörkun ríkisins um hvernig fjármunum verður varið og þar af leiðandi hvernig verkefnum er forgangsraðað og þau unnin.

Mig langar eiginlega, virðulegi forseti, að fagna þessu óskaplega. Mér þykir merkilegt að upplifa það á Alþingi að sjá slíka gerbreytingu á vinnulagi þó svo að við séum auðvitað að gera þetta í fyrsta skipti og læra á hlaupunum. Sú aðferðafræði að leggja fram fjármálaáætlun til fimm ára þar sem í raun er mörkuð stefna í málaflokkunum, mörkuð stefna í forgangsröðun á milli málaflokka án þess að farið sé niður í smáatriðin og verið að úthluta krónunum hingað og þangað, niður í smæstu verkefni, það eru vinnubrögð sem flest lönd sem við miðum okkur við eru fyrir löngu búin að taka upp og eru til fyrirmyndar. Þetta er aðferðafræði sem eykur á fyrirsjáanleika, á gagnsæi og á öryggi í skipulagningu og betri aðkomu.

Þetta er nokkuð sem við Íslendingar erum að læra. Okkur hefur gengið illa að setja stefnu í málum. Við erum, kannski skiljanlega af sögunni hérna á eyju á norðurhjaranum, vön því að bregðast við síbreytilegum aðstæðum. Við erum alltaf að fiska þegar færi gefst, bjarga heyi inn áður en óveður kemur o.s.frv. Sá ósiður hefur fylgt okkur áfram jafnvel í jafn flókin og viðamikil verkefni og ríkisfjármálin.

Það verður að segjast eins og er að íslenskt efnahagslíf, öldugangur gengis íslensku krónunnar í gegnum tíðina, ofsaleg rússíbanareið góðæris á móti hallæri í íslensku efnahagslífi, hefur svo sem ekki kennt okkur annað en að þetta sé ágætisaðferðafræði, þ.e. að láta dálítið reka á reiðanum og redda okkur eftir því hvers konar viðbrögð eiga við. En þetta er ekki leið til að reka efnahagskerfi, ekki leið til að skipuleggja efnahagslíf. Við höfum reynt og rembst við að breikka grunn íslensks efnahagslífs.

Þegar ég var ungur maður var fiskútflutningur alger grunnforsenda velsældar á Íslandi, um og yfir tveir þriðju af útflutningsverðmætum Íslendinga. Góð eða slæm ár í þorskgengd við landið höfðu öll áhrif á hvort hér væri almennilega bjart í efnahagslífinu eða ekki. Við höfum til allrar hamingju náð að skjóta fleiri stoðum undir efnahagslífið, fjölbreyttari stoðum. Við erum sennilega að upplifa núna með þeirri stórkostlegu sprengingu í ferðamannaiðnaðinum nýtt skeið þar sem við upplifum ofgnótt af gjaldeyri en ekki skort. Þetta á eftir að hafa stór áhrif á efnahagslífið á næstu árum. En á sama tíma skipuleggjum við það ekkert. Við höfum ekki tekið stóra pósta eins og ferðaþjónustuna, nýsköpunariðnaðinn, tækniiðnaðinn, þessar nýju stoðir íslensks efnahagslífs, við höfum ekki breiða stefnumörkun með breiðri og skýrri aðkomu í þeim málaflokkum. Fyrir vikið erum við alltaf dálítið að redda okkur fyrir horn og bregðast við aðstæðum.

Ég vona, og þess vegna sagði ég áðan að ég fagnaði ógurlega þessum breytingum, að lög um opinber fjármál, sú nýja aðferðafræði um fjármálaáætlun, um lengri áætlunargerð, muni gera okkur kleift að skipuleggja betur íslenskt efnahagslíf og skipuleggja verkefnin betur. Þetta á við um stóru málaflokkana sem einokuðu að miklu leyti alla umræðu í kosningabaráttunni, sem voru fyrst og fremst heilbrigðiskerfið en síðan menntakerfið, málefni ungs fólks. Allir flokkar voru sammála í kosningabaráttunni. Hvar sem maður kom voru allir kollegar manns sammála um að það þyrfti að blása í sérstök átök í heilbrigðiskerfinu og menntakerfinu, að horfa þyrfti sérstaklega á málefni ungs fólks og framtíðarinnar, í atvinnusköpun, húsnæðismálum, stöðugleika þegar kom að fjármálum og tengist umræðunni um gengismálin o.s.frv. En það verður að segjast eins og er að við erum samt enn þá föst í því að taka gömlu fjárlögin, horfa á útgjöldin þar, sirka plús og mínus, finna hvar er skortur og reyna að fylla í og síðan er, því miður, enn tilhneiging hjá okkur þingmönnum að reyna að bjarga hlutum jafnvel niður í smæstu einingar til að bjarga einhverjum verðugum verkefnum sem við vitum af eða okkur hefur sérstaklega verið bent á. Við höfum enn ekki lært þau nýju vinnubrögð sem við erum byrjuð að stíga inn í. En mikið afskaplega er samt ánægjulegt að vera hér og taka þátt í að leggja fram fjárlög sem, þó svo að enginn sé fullkomlega sáttur við þau, eru þó lögð fram í samkomulagi um tillögur.

Virðulegi forseti. Ég ætlaði ekki að lengja þennan fund sérstaklega. Mig langaði bara til að koma aðeins inn á þá breytingu sem er að verða. Hún er ekki bara vegna þess að við erum í þessari óvenjulegu aðstöðu, að vera með stuttan tíma í fjárlagavinnunni og vinna án skýrs stjórnarmeirihluta. Þetta eru stærri tíðindi en svo. Þau eru mikið fagnaðarefni. En á sama tíma brýni ég fyrir okkur, kæru samþingmenn, að við þurfum að vanda til verka og vera með galopin augu um hvernig við vinnum í þessu nýja umhverfi.

Virðulegur forseti. Ég hef lokið máli mínu.