146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:18]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Sá sem hér stendur er einn af þeim þingmönnum sem vita ekkert betra en að vera hér í þinghúsinu og þingsalnum. Ég myndi persónulega fagna því að vera hérna sem lengst. Ég er hins vegar ekki alveg viss um að það myndi endilega ná tilætlaðri niðurstöðu, eða öllu heldur er ég ekki viss um að það myndi breyta vinnubrögðum svo mjög. Þrátt fyrir að vika sé langur tími í pólitík þýðir það tæplega að við munum öll læra allt fjárlagafrumvarpið utan að eða rýna það eitthvað sérstaklega meira til gagns en nú þegar hefur verið gert, á stuttum tíma vissulega. En ég veit að unnin hefur verið mjög góð vinna. Þó svo að flest, ja, við erum að setja met, er það ekki? í nýliðun á Alþingi, þá vitum við og höfum séð þær vikur eftir að þingið kom saman að þessir nýliðar eru bara býsna vel valdir. Ég (Forseti hringir.) treysti þeim alveg fullkomlega til að vinna vel þó að þeir séu nýliðar.