146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:25]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka áhuga á stefnu Bjartrar framtíðar en vegna tímahraks bendi ég hv. þingmönnum, og öðrum sem fylgjast með, á heilbrigðisstefnu Bjartrar framtíðar sem er á heimasíðu flokksins. Ég er sammála hv. þingmanni um að það er stórkostlega jákvæð breyting hvað geðheilbrigðismál eru orðin sjálfsagður hluti af heilbrigðiskerfinu og umræðu um heilbrigði. Hins vegar hef ég einhvern tíma gantast með að við þurfum í pólitísku samhengi að viðurkenna að bæði sál og tennur eru hluti af líkamanum. Þetta er hluti af því sem ég ræddi í ræðu minni, við þurfum breiða stefnu í heilbrigðismálum yfir höfuð. Við þurfum að horfa á málaflokkinn allan frá upphafi. Hluti af því er að leggja meiri áherslu á lýðheilsu, á heilsugæsluna o.s.frv. (Forseti hringir.) Ég fagna því þessari ábendingu og vona að ég og hv. þingmaður eigum eftir að ræða þessi mál mikið í þessum sal.