146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:27]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka fyrir góða ræðu hjá hv. þingmanni. Það vakti mig þó til umhugsunar, eins og gerst hefur nokkrum sinnum áður í þessari umræðu allri, umræða um ný vinnubrögð við gerð ríkisfjármála. Nú er það svo að ríkisfjármál eru eitt það alpólitískasta sem er samið og þróað og samþykkt á hverju þingi. Í þeim kemur fram stefna þingsins ekki síður en ríkisstjórnarinnar fyrir næstkomandi ár. Þar koma fram allar þær hugmyndir sem skipta máli hvernig samfélagið mun hegða sér á því komandi ári. En með þessum nýju vinnubrögðum er búið að taka alla pólitíkina á vissan hátt út úr dæminu og fela ráðuneytunum miklu meira vald en hefur verið. Því langar mig að spyrja hv. þm. Óttar Proppé hvort það fyrirkomulag komi honum á óvart, hvort þetta skili nú þegar jákvæðum pólitískum niðurstöðum eða hvort þetta taki vald frá þinginu án þess að skila okkur neinni aukinni skilvirkni og bættum vinnubrögðum í staðinn. Í því samhengi hugsa ég til annars máls sem er alveg gríðarlega pólitískt, þ.e. stefna í gjaldeyrismálum, og vísa ég til ágætisbókar eftir gríska hagfræðinginn Yanis Varoufakis, sem var fjármálaráðherra þar í landi, en bókin heitir And the Weak Suffer What They Must? eða Hinir veiku þola hvað þeir þurfa. Þar rekur hann skaðann sem hefur orðið af afpólitíseringu gjaldmiðilsstefnu.