146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:32]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil kannski ekki taka svo djúpt í árinni að segja að ég deili áhyggjum með hv. þingmanni en ég er sammála því að við þurfum að þroska og þróa þessi vinnubrögð. Við erum að taka upp ný vinnubrögð við mjög sérstakar aðstæður. Við þurfum auðvitað að þróa þau þannig að þingmenn og þá helst þingheimur allur, ekki bara lítill hluti þingheims eða stjórnarliða, hafi enn betri og dýpri sýn inn í málin. Ég er algerlega sammála því. Hins vegar held ég, af því að þingmaðurinn spurði í fyrra andsvari um bók gríska fjármálaráðherrans, sem ég hef því miður ekki lesið en kynnt mér aðeins speki hans, að málið sé ekki síst að hafa skýra, afmarkaða og gagnsæja ramma um vinnubrögð en ekki tilraunakennd vinnubrögð. Ég er nógu hundgamall til að muna eftir pólitískri stýringu bankakerfisins á Íslandi. (Forseti hringir.) Ég tel að það hafi ekki verið til góðs, ekki verið gagnsætt og ekki lýðræðislegt.