146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[17:34]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Fjárlög hvers árs mynda í raun grunn fyrir þá umræðu sem mun eiga sér stað í samfélaginu næsta árið. Séu fjárlögin góð verða samræðurnar í samfélaginu góðar. En við vitum að það er ekki alltaf hægt að vinna góð fjárlög. Margt getur komið upp á sem skaðar þá vinnu, hvort sem það er pólitískt eða efnahagslegt. Efnahagsöflin geta gert væntingar stjórnmálamanna um að ríkið starfi vel óraunsæjar. Þó svo að fólk vilji gjarnan geta gert betur í ýmsum hlutum er það ekki endilega alltaf hægt. Sömuleiðis geta slæmar aðstæður í samfélaginu sem eru ekki af efnahagslegum toga gert að verkum að möguleikarnir verða ekki jafn góðir, það geta verið alls konar aðstæður, hvort sem það eru fólksflutningar, stríðsrekstur eða annað.

Stundum er þó hægt að gera vel. Nú er staðan nokkurs konar millistaða. Það hefur sýnt sig að hægt er að gera vel á sumum sviðum ríkisfjármála. Það er vel hægt að ná miklum árangri í stórum og veigamiklum málum, mörgum hverjum sem allir flokkar sem buðu sig fram til Alþingis settu í forgang. En því miður stendur þetta fjárlagafrumvarp ekki nægilega vel á sumum sviðum. Það er niðurskurður í ýmsu. Sum mikilvæg verkefni eru ekki framlengd. Það er ekki lagt fullt afl í t.d. heilbrigðismál, samgöngumál og ýmislegt fleira. Lítið er gert fyrir öryrkja, aldraða, fólk sem er að reyna að mennta sig. Í rauninni er staðan afturhaldsstaða í besta falli og sett í bakkgír að öllum líkindum. (Félmrh.: … 23 milljarðar ekki nóg?) Svo ég svari innskoti hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra, þá eru 23 milljarðar greinilega ekki nóg ef meta má stöðu mála. Sömuleiðis vantar enn þá töluvert mikið inn í heilbrigðismálin sérstaklega. En ég kem að því síðar.

Staðan er hreinlega þannig að innviðir landsins eru að grotna niður. Það er að hluta til vegna þess að viðhaldið hefur verið mjög takmarkað undanfarin ár. Það skýrist fyrst og fremst af hruninu og þeim aðhaldsaðgerðum sem var farið í þá en sömuleiðis vegna aukins straums ferðamanna til landsins sem nú telja um 2 milljónir, eða 1,7 milljónir er nær lagi. Og auðvitað sækja ferðamenn hingað vegna þess að náttúran er afskaplega falleg. Hún væri sennilega enn þá fallegri ef vegirnir okkar væru ekki sú dauðagildra sem þeir eru. Hringinn í kringum landið eru tugir einbreiðra brúa og vegaxlir eru afskaplega litlar mjög víða. Og það var síðast í kvöld sem þurfti að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar til þess að sækja fólk sem hafði lent í bílslysi úti á landi.

Að sjálfsögðu þurfum við það sem er að gerast í hagkerfinu út af ferðamönnunum til þess að geta haldið uppi þeim heilbrigðisstofnunum sem við þurfum og til þess að reka þetta land. Þar hefur einnig vantað svolítið upp á.

En sumt er þó gott. Það er afskaplega margt sem kemur vel út í fjárlagafrumvarpinu og sömuleiðis hafa þær breytingartillögur sem komu fram í gegnum þá sátt sem myndaðist í fjárlaganefnd verið mestan part afskaplega góðar. Þá vil ég helst nefna aukningu á framlögum til skatteftirlits sem nemur 47,5 millj. kr. Sú fjárhæð gerir skattstjóra kleift að halda áfram auknu vettvangseftirliti með fyrirtækjum sem kunna að vera að svindla með einhverjum hætti. Þetta er í rauninni ekki aukning á fjármagni til skattstjóra heldur er ekki skorið niður um 47,5 milljónir frá síðasta ári, svo því sé haldið til haga. Í raun er staðan á núlli. Eða svo ég leiðrétti mig strax voru það 37,5 milljónir á síðasta ári. Þetta er því aukning en varla sem nemur vísitöluhækkun.

Sömuleiðis er afskaplega gott að búið er að finna til peninga, um það bil 400 millj. kr., til að efla löggæslu. Þegar við erum með þessa stórskaðlegu vegi og þá auknu umferð sem er víða um land, sérstaklega í mínu kjördæmi en ekki síður í öðrum kjördæmum landsins, þarf hreinlega aukna löggæslu til þess að geta séð vel um þá sem ferðast um landið og hjálpað þeim þegar þörf er á. 400 milljónir eru vissulega góð aukning í það og sömuleiðis 100 milljónir í viðbót til Landhelgisgæslunnar.

Það er fleira sem er gott, en 4,5 milljarðar kr. í samgöngumál er ekki alveg nógu gott þar sem samþykkt var samgönguáætlun fyrir þinglok upp á 13,2 milljarða kr. Betur má ef duga skal í þeim efnum.

Það er bætt lítillega í háskólana, um 1 milljarð, sem er afskaplega gott. Það er verið að auka sérhæfða sjúkrahúsþjónustu um 2,15 milljarða en að vísu er þar kannski atriði sem þyrfti að kanna nánar í frumvarpinu, það er ekki allt sem sýnist þar. Það er einnig dálítil viðbót í heilbrigðiskerfinu, vonandi dugar hún til þess að ná núlli en ég kem að því á eftir.

Þetta er því ekki þannig að frumvarpið sé algerlega glatað, herra forseti. Staðan er eiginlega frekar sú að við gerum næstum því nógu vel til þess að geta verið á núlli en ekki mikið meira en það. Mér er spurn hvort það sé það sem við viljum gera í þessu samfélagi, að reka hlutina þannig að fólkið í landinu rétt slefi í gegnum stöðuna hverju sinni.

Þegar við fórum af stað í fjárlagavinnuna lögðu Píratar í þá vinnu að sækja og taka saman upplýsingar frá öllum heilbrigðisstofnunum úti um allt land, sækja upplýsingar sem víðast hjá stofnununum sjálfum, um hvað þyrfti til að tryggja lágmarksþjónustu. Lágmarksþjónustu, ekki einhverja fíleflda glansþjónustu með sérstökum hamingjutilbrigðum, herra forseti, heldur bara að manna stöður og kaupa tæki og hafa hentugt húsnæði þannig að fólk þurfi ekki hreinlega að deyja eða þola rosalega skerta þjónustu vegna þess að ekki eru til peningar til að gera það sem þarf. Þetta finnst mér vera lykilatriðið. Ef við ætlum að halda uppi góðu samfélagi eru nokkur lykilatriði sem við þurfum að huga að. Fyrsta atriðið er að við ætlum að byggja samfélag um fólk en ekki peninga, eins og ég hef nefnt áður í þessum ræðustól. Þá kemur næsta spurning: Hvernig tryggjum við fólki gott líf? Gerum við það með því að lækka skatta? Stundum. Hækka þá? Stundum. En fyrst og fremst þurfum við að veita þá þjónustu eða tryggja að þjónusta sé til staðar til þess að fólk geti komist lifandi frá þessu eins lengi og hægt er og að fólk sé starfhæft í þann tíma sem það er á lífi, koðni ekki niður vegna lífsstílssjúkdóma, geðraskana eða hvers kyns heilsufarstaps. Það er held ég eitt lykilatriðið.

Auðvitað þurfum við fleira til þess að samfélagið gangi. Við þurfum góðan mat, þurfum heilbrigt hagkerfi til þess að sjá um dreifingu allra auðlinda okkar. Í rauninni er rekstur samfélagsins stærra og heimspekilegra mál en ég ætla út í hér. En við eigum öll rétt á fullnægjandi heilbrigðisþjónustu og eigum öll að hafa jafnan aðgang að henni. Það eru grundvallarmannréttindi. Að lokum á að tryggja að heilbrigðisþjónusta og nauðsynleg lyfjakaup séu gjaldfrjáls. Og við í Pírötum segjum gjaldfrjáls, ekki bara vegna þess að okkur langi til þess að hafa einhvers konar „fríkeypis“ aðkomu að öllu og enginn þurfi að gera neitt, heldur vegna þess að líkurnar á því að fólk geti gert eitthvað gagnlegt í sínu lífi aukast þegar það þarf ekki að skrimta, þarf ekki að þola skerðingu á mannvirðingu og mannréttindum hreinlega vegna þess að það hefur ekki efni á að fara á sjúkrahús.

Til þess að þetta gangi er ekki nóg að byggja fínasta sjúkrahús í heimi heldur þarf réttan aðbúnað og það þarf vel menntað heilbrigðisstarfsfólk sem getur starfað á góðum kjörum og á skynsamlegan hátt en er ekki ofkeyrt vegna vinnuálags. Svo hefur ekki verið undanfarið, enda hefur verið rosalegur fólksflótti, spekileki hefur það verið kallað þegar margt af hæfasta fólki landsins, að öllum öðrum ólöstuðum, flýr land ef það mögulega getur. Og vissulega eru margir sem geta ekki … (Gripið fram í: … koma heim aftur.) (Forseti hringir.)

(Forseti (BÁ): Ekki tveggja manna tal.)

Það hefur verið spekileki og margir hafa farið úr landi. Það hefur leitt til þess að staðan er kannski verri en hún þyrfti að vera. Þess vegna er ágætt að líta til þess sem stendur í drögum stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá, með leyfi forseta:

„Öllum skal með lögum tryggður réttur til að njóta andlegrar og líkamlegrar heilsu að hæsta marki sem unnt er, þ.m.t. réttur á heilnæmu umhverfi, fersku vatni og ómenguðu andrúmslofti. Öllum skal með lögum tryggður réttur til aðgengilegrar, viðeigandi og fullnægjandi heilbrigðisþjónustu.“

Þar kem ég inn á geðheilbrigði sem hefur kannski verið mikið talað um en hefur vantað svolítið í umræðuna um það hvernig við höldum heilbrigðiskerfinu á núlli. Heilbrigðiskerfið hefur verið í miklum mínus hvað það mál varðar. Geðheilbrigði er eitt brýnasta viðfangsefni okkar tíma og stjórnvöld þurfa að gera mun betur í að styðja við að geðheilbrigðisþjónusta verði gjaldfrjáls. Sérstaklega er mikilvægt að ungmenni með geðrænar raskanir fái viðeigandi og fullnægjandi aðstoð. Þess vegna höfum við talað um að það sé mjög mikilvægt að við tökum sálfræðiþjónustu inn í sjúkratryggingakerfið en líka vegna þess að geðlyf eru oft afskaplega dýr, svo ekki sé talað um rosalega flókin, það tekur stundum margar tilraunir að finna geðlyf við hæfi fyrir fólk. Það þarf að tryggja að þessi lyf séu með öllu gjaldfrjáls, alltaf, ekki bara stundum niðurgreidd eftir því hvað maður hefur eytt miklum peningi á árinu.

Ég gæti svo sem haldið áfram lengi um þetta, það er margt annað sem kemur til, tannheilsa og fleira. En það er kannski ekki nauðsynlegt að orðlengja það. Mikilvæga atriðið er fyrst og fremst að staðan í samfélaginu er miklu betri núna en hún var fyrir nokkrum árum. Margir hafa flúið land, margir hafa eins og ég sjálfur komið aftur, sumir í von um að hlutirnir væru orðnir betri, aðrir í þeim tilgangi og með það að markmiði að gera hlutina betri svo aðrir geti komið og búið hér. En það þarf að vinna miklu betur að þessum hlutum.

Vandamálið við fjárlagafrumvarpið og breytingartillögurnar við það er að það vantar slatta í þær. Í frumvarpið vantar 5,3 milljarða kr. í Landspítala – háskólasjúkrahús til að hægt sé að reka það án þess að til niðurskurðar komi. Það sem vantaði var að einhverju leyti fundið til í breytingartillögum fjárlaganefndar en þær hækkanir duga ekki til að ná upp í þessa upphæð. Hérna kemur að kjarnapunktinum. Samkvæmt talnanna hljóðan er þetta nægur peningur en það vantar samt enn 2,2 milljarða upp á að það stemmi. Það liggja 2,2 milljarðar í lið sem heitir Sjúkrahús, óskipt. Þar af eiga 600 millj. kr. að fara í svokallað DRG-kerfi sem gengur út á að bæta skilvirkni í heilbrigðiskerfinu. En þessi liður, Sjúkrahús, óskipt, var ekki til nema í mýflugumynd árið 2015 þar sem hann hljóðaði upp á 67 millj. kr. en árið 2016, á þessu fjárlagaári, óx hann úr 67 millj. kr. í 1,2 milljarða. Á næsta ári, með þessum fjárlögum, er gengið út frá því að þessi liður hækki enn frekar, upp í 2,2 milljarða kr. Það er kannski vel, nema hvað að þessi liður er hugsaður til þess að styrkja sjúkrahúsarekstur, en þessir peningar hafa samt aldrei skilað sér til Landspítalans. Því er kannski vert að spyrja hvert peningarnir hafi farið og hvert aukningin um milljarð eigi að fara. Það þykir nokkuð líklegt að þessir peningar, fyrst þeir fara ekki til Landspítalans, ég hef ekki fengið sundurliðun á því hvert þeir hafa farið, fari líklega í t.d. einkarekin sjúkrahús sem er kannski ætlað að afgreiða einföld tilfelli og hirða ágóðann en vísa öllum flóknari málum á Landspítalann sem fær nú þegar samkvæmt fjárlagafrumvarpinu ekki næga peninga til að geta staðið undir sínu. Það að liðurinn skuli hafa hækkað um milljarð milli ára án þess að neinn hafi gert athugasemd við það og að það vanti samkvæmt þessu 2 milljarða í Landspítalann til að koma í veg fyrir niðurskurð veldur mér rosalega miklum áhyggjum. Jafnvel þó að þessir peningar væru færðir til strax þá þyrftum við að ganga út frá því, þá þyrfti Landspítalinn að ganga út frá því — það er rosalega mikill kliður í salnum, afsakið, ég á erfitt með að halda einbeitingu. Það er erfitt fyrir Landspítalinn að gera ráð fyrir að þessir 2,2 milljarðar skili sér endilega á réttan stað og þá kemur til niðurskurðar ef 2,2 milljarðar undir liðnum Sjúkrahús, óskipt verða ekki færðir til með viðunandi hætti áður en fjárlagafrumvarpið er samþykkt.

Ég vona að þingið hafi möguleika á að sýna þann þroska að laga þetta vandamál áður en til raunverulegs niðurskurðar kemur á Landspítalanum. Ef við höfum ekki þann þroska veit ég ekki til hvers við erum hérna.