146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:02]
Horfa

félags- og húsnæðismálaráðherra (Eygló Harðardóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil taka fram að það eru fleiri góðar heilbrigðisstofnanir í Suðurkjördæmi en akkúrat á Höfn, þótt hún sé mjög fín þar. Hægt er að nefna heilbrigðisstofnanirnar í Reykjanesbæ, á Selfossi og í Vestmannaeyjum sem hafa verið að kalla eftir auknum fjármunum. En er hv. þingmaður að segja, og hafi haldið því fram í ræðu sinni, að ekki ætti að nýta þá fjármuni til þess að efla þær stofnanir svo þær geti sinnt verkefnum sínum, heldur aðeins eyrnamerkja aukna fjármuni sem snúa að spítalaþjónustu á Landspítalanum? Því að ég gat ekki skilið hv. þingmann öðruvísi en að hann væri að segja að það væri fyrst og fremst hans skoðun að þeir peningar ættu að vera eyrnamerktir Landspítalanum. Að hvaða leyti myndi það þá leysa t.d. þær ábendingar sem hafa komið fram frá McKinsey og landlækni um að mikilvægt sé að horfa til heilsugæslunnar, horfa til þess að byggja upp heimahjúkrun og hjúkrunarheimili, annars vegar að leysa innflæðisvandann og hins vegar fráflæðisvanda hjá Landspítalanum til að draga úr álagi á þeirri mikilvægu og stóru stofnun okkar?