146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:05]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gaman að því að það kom fram að hér eru margir nýir þingmenn en það er rétt að menn eru fljótir að læra. Maður hlýtur að standa agndofa gagnvart þeim hæfileika mannsheilans að tileinka sér aldagamlar hefðir hratt.

Mig langar fyrst að spyrja hv. þm. Smára McCarthy að einu sem ég tók sérstaklega eftir í ræðu hans. Hann nefndi að flokkur hans hefði sérstaklega kallað eftir hugmyndum um fjárþörf hjá heilbrigðisstofnunum um allt land. Þá velti ég fyrir mér hvort þingmaður hafi ekki áhyggjur af því að með því að fókusera svona mikið á þennan eina málaflokk muni koma svör þaðan um að þar sé fjárþörf en ekki koma sambærileg svör frá stöðum sem ekki er leitað til. Leiðir það ekki til þess að þessi málaflokkur sem margir taka eftir og fylgjast með fái fjárframlög í samræmi við þá athygli sem hann fær en kannski ekki í samræmi við þá raunverulegu hlutfallslegu þörf sem ætti að skipta kökunni miðað við fjárlögin?

Í okkar norræna kerfi erum við með ákveðið vald sem ráðherrar hafa, ekki einungis framkvæmdarvald heldur einnig frumkvæðisvald þegar kemur að lagasetningu, og í tilfelli fjármálaráðherra frumkvæðisvald þegar kemur að gerð fjárlaga. Það er ákveðið kerfi í þessu. Það er tillögugerð þar sem fulltrúar viðkomandi ríkisstofnana skila sínum hugmyndum og fá til baka eitthvert „feedback“, einhverja viðspyrnu. Síðan eiga sérfræðingar innan ráðuneytisins að fara yfir þessar tillögur.

Spurningin er þessi: Telur þingmaðurinn að við værum með betra fjárlagafrumvarp í heild sinni ef allir flokkar færu hver fyrir sig í þá vinnu og kæmu síðan hingað frekar en að það væri meiri fókus á betri vinnu innan ráðuneytisins?