146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:08]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Frú forseti. Ég vil þakka fyrir umræðuna í dag sem hefur verið mjög góð og mikilvæg. Hjá mörgum ræðumönnum hefur komið fram góður skilningur á að við erum að fást við flókna úrlausn, umfangsmikla úrlausn á stóru þingmáli við mjög óvenjulegar aðstæður, en í sjálfu sér er ekki hægt að fela sig á bak við óvenjulegar aðstæður að við tökum góðar og upplýstar ákvarðanir um hvað við erum að gera og hvað við viljum undirbyggja.

Við höfum rætt heilmikið í dag um samgöngur og ýmis mikilvæg mál. Flestir hv. þingmenn hafa sagt að við viljum meira, viljum komast hraðar áfram og menn hafa lagt fram hugmyndir um aðra fjármögnun og slíka hluti. En við erum komin á þennan stað í umræðunni um fjárlagafrumvarp fyrir næsta ár sem hefur skilað okkur mjög góðri niðurstöðu, að mér finnst, í þessari umræðu.

Mig langar, virðulegi forseti, að rekja það aðeins hvernig við unnum í hv. fjárlaganefnd að því að undirbyggja tillögugerðina eins og t.d. á sviði heilbrigðismála, vegna þess að heilbrigðismálaflokkurinn er náttúrlega óskaplega stór, umfangsmikill og margþættur, og það skiptir máli að við förum ekki með tilviljanakenndum hætti inn í hann. Þess vegna nutum við þess að ráðuneyti málaflokksins, þ.e. hagdeild heilbrigðisráðuneytisins, vann með okkur að tillögugerð að því að greina stöðuna og undirbyggja þær aðgerðir sem við viljum grípa til. Við áttum líka mjög góðan fund með stjórnendum Landspítalans. Á þeim fundi færði Landspítalinn fram mjög gild rök fyrir málflutningi sínum og áhyggjum sem við metum mikils og við urðum að mörgu leyti sammála þeim sjónarmiðum sem Landspítalinn lagði þar fram, tókum þær áfram og unnum það síðan með ráðuneytinu. Ég vil bara undirstrika það hér. Við höfum stig af stigi reynt að vinna okkur til niðurstöðu í málinu.

Tillögur okkar eru margþættar. Tillögur okkar eru ekki bara um aukafjármuni inn í Landspítala sisvona, vegna þess að við höfum líka ágæta, góða og vandaða greiningu sem unnin var að frumkvæði þeirrar fjárlaganefndar sem áður var, þ.e. McKinsey-skýrslu sem sagði: Við getum ekki með tilviljanakenndum hætti lagt fjármuni inn í heilbrigðiskerfið. Þetta var bakgrunnurinn að því sem við gerðum. Við fléttum þetta saman í tillögugerð sem er í fjárlagafrumvarpinu, í fjáraukanum og síðan í lokafjárlögum, vegna þess að við erum á þeim tímamótum núna að fjárlaganefnd sem vann að þessum tillögum vill koma heilbrigðisstofnunum á núll. Það er markmiðið okkar. Núll í þeim skilningi að menn komist í það umhverfi að mæta nýjum fjárreiðulögum með góða og sterka stöðu. Heilbrigðisstofnanir allt í kringum landið, litlar og stórar, hafa margar verið að strögla. Öðrum hefur gengið mjög vel og hafa tekið mjög myndarlega á sínum málum, eins og þær allar hafa gert.

Það er því ásetningur og einlægur vilji fjárlaganefndar að ekki verði niðurskurður á Landspítalanum til þess að draga saman í grundvallarþjónustu á nýju ári. Við erum ekki að flytja tillögurnar um að svo verði. Það er skilningur okkar að með þessari undirbyggingu og tillögugerð séum við komin á þann stað að til þess komi ekki, nema þá að einhver óvænt áföll verði eða óvæntir atburðir sem keyra það þá þannig út að slíkt verði, og þá verðum við að sjálfsögðu að bregðast við. Fjárlaganefnd hver sem hún verður, þetta er allt svolítið bráðabirgðaástand hjá okkur núna, mun á nýju ári fylgja þeirri áætlun mjög fast eftir og vakta þær áætlanir og þau plön sem gerð eru og bregðast þá við ef út af bregður frá þeim skilningi fjárlaganefndar. Það verður hlutverk okkar. Ég held að á þessum tíma, þegar allt þingið stendur saman að þessari tillögugerð, sé frábær tímapunktur til að einsetja sér þau markmið.

Virðulegi forseti. Ég get ekki annað sagt en að umræðan í dag, vinnan í fjárlaganefndinni, hafi verið mjög uppbyggileg og skilað okkur á góðan stað. Þingið, og þjóðin sem kaus sér þetta þing, ekki síst út af einlægum ásetningi sínum um að bæta heilbrigðiskerfið á nýjan leik og fara aftur að byggja upp og sækja fram, sé komið á stallinn sem við ætlum að byggja upp frá. Það er megintilgangur tillögugerðar okkar og við hann ætlum við að standa.

Ég þakka fyrir góða umræðu, virðulegi forseti.