146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:15]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þessa fyrirspurn. Ég var að lýsa því áðan að við hefðum unnið þessa tillögu stig af stigi. Við höfum séð þær áætlanir sem er hægt að byggja á tillögum okkar um að ekki komi til niðurskurðar. Komi til niðurskurðar þá var ekki verið að segja fjárlaganefnd satt. Við því hlýtur fjárlaganefndin að bregðast ef sú staða kemur upp. Við meinum alveg það sem við segjum. Tillögur okkar fjármagna ákveðinn stað sem við viljum komast á. Ráðuneyti málaflokksins hefur sagt: Já, við munum koma okkur réttum megin við strikið í þessum efnið, það mun ekki koma til niðurskurðar. Ef það bregst síðan eftir tvo eða fjóra daga þá hljótum við að þurfa að bregðast við því eða nýr stjórnarmeirihluti ef hann verður kominn til eða hvernig sem það verður. En þetta er einlægur ásetningur þingsins sem stendur sameiginlega að tillögugerð fyrir fjárlög árið 2017. Fyrir mér myndi ekki skipta nokkru máli hvaða meiri hluti það væri vegna þess að við ætlum að komast þangað.