146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:17]
Horfa

Frsm. 5. minni hluta fjárln. (Björn Leví Gunnarsson) (P) (andsvar):

Forseti. Ég kem hérna nýr inn og inn í fjárlaganefnd og verð vitni að mjög fjölbreyttum hópi fólks sem byrjar að vinna saman dálítið á taugum, en ásetningurinn var mjög skýr. Það var einlægur vilji nefndarinnar, skref fyrir skref eins og hæstv. formaður nefndarinnar segir, að heilbrigðisstofnanir hefðu a.m.k. tækifæri til að byrja á núlli og möguleika til að koma í veg fyrir hallarekstur. Ekki minni þjónusta, það er það sem við gengum út frá. Ég vil ítreka það að ég tel, eftir að hafa rýnt í allar tölur og gögn, að þetta sé hægt. Það er margt sem getur farið úrskeiðis. Það eru verkefni sem gætu ekki heppnast eins vel og við búumst við. Við getum brugðist við því. Ég tel að markmiðinu hafi verið skilað. Við verðum sem þing að nýta lög um opinber fjármál eins og þau hafa verið sett gríðarlega vel hvað varðar eftirlitshlutverkið til að passa að fjármunum sé varið á sem skilvirkastan og ábyrgastan hátt fyrir alla landsmenn. Þetta eru jú peningarnir þeirra.

Mig langar til þess að þakka nefndinni fyrir mjög góða samvinnu og gríðarlega lærdómsríkt ferli á þessum stutta tíma og ítreka orð hæstv. formanns: Við erum að koma okkur á núllið, það er markmiðið. Það verður ekki niðurskurður og við verðum að bregðast við ef út af því bregður.