146. löggjafarþing — 12. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[18:19]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka þingmanninum andsvarið. Hann rammar þetta mjög vel inn. Við fáum verkfæri með nýjum lögum um opinber fjármál og hefði ég haft til þess betri tíma fyrr í dag eða ekki sóað ræðutíma mínum í að tala um eitthvað annað þá hefði ég líka viljað tala um það hvernig fjárlaganefndin ætlar að stilla upp eftirlitshlutverki sínu á nýju ári samkvæmt þessum nýju lögum. Ég held að það hvernig við ætlum að vinna geti orðið mjög spennandi verkefni vegna þess að lögin eru mjög skýr um það hvernig stofnanir eiga að haga sínum málum, hvernig ráðuneytin eiga að haga sínum málum. Fjárlagafrumvarpið hefur líka að geyma varasjóði málaflokka o.s.frv., þannig að í því er líka ákveðinn sveigjanleiki. Ég get ekki annað sagt en að ég sé alveg sammála því sjónarmiði sem hv. þingmaður kemur með í sínu andsvari, við eigum að nýta okkur þau tæki sem löggjöfin hefur látið okkur í hendur.