146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[18:27]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti frá 1. minni hluta fjárlaganefndar. Ég opnaði framsöguræðu mína fyrr í dag um fjárlagafrumvarpið sjálft með því að útskýra hvers vegna það er lagt fram af 1. minni hluta. Vegna óvenjulegra aðstæðna rita undir þetta nefndarálit fulltrúar flokkanna sem sitja í starfsstjórninni en hafa ekki til þess meiri hluta.

Árið 2016 var sögulegt ár í ríkisfjármálum. Þetta fjáraukalagafrumvarp sem er reyndar númer tvö í röðinni af fjáraukalagafrumvörpum á þessu hausti endurspeglar það ljómandi vel. Við vorum að færa inn í ríkissjóð stöðugleikaframlög, afrakstur af uppskiptingu þrotabúanna, það sem er viðsnúningur þjóðarbúsins á nýjan leik, og greiða úr málum eftirhrunsins. Þess sjást merki í þessu fjáraukalagafrumvarpi eins og í fjárlögunum sem giltu fyrir þetta ár.

Vonandi munum við ekki sjá í annan tíma aðrar eins sveiflur í ríkisfjármálum og við upplifum í frumvörpum um fjárlög þessa árs. Það eru líka tímamót í þeirri staðreynd að nú erum við í síðasta sinn að ræða um fjáraukalagafrumvarp eftir þeirri löggjöf sem hefur gilt á undanförnum árum um fjárreiður. Í nýju lagaumhverfi ríkisfjármála er tekið á því með þeim hætti að til fjáraukalaga á miklu síður að þurfa að koma en við höfum þurft að beita þeim á undanförnum árum. Í þau eru undirbyggðir varasjóðir málaflokka til að bregðast við óvæntum atvikum. Það er kannski fyrst og fremst hlutverk fjárlaganefndar hverju sinni og auk fjáraukalaga að gera ekki miklu meira en það sem verjandi er gagnvart þeim ákvæðum fjáraukalaga sem gilda um fjáraukalög, að bregðast þá við óvæntum útgjöldum og óvæntum aðstæðum. Hvaða skoðun sem við höfum haft á því á undanförnum árum hefur þetta verið aðalverkefnið.

Ég mun ekki rekja í smáatriðum breytingartillögur okkar við fjáraukalagafrumvarpið eins og það kom frá hæstv. fjármálaráðherra í 1. umr. og í framsögu hans, aðeins segja að hér er um veruleg frávik í áætlunargerð að ræða. Hér er t.d. um 30 milljarða aukning skatttekna sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Við höfum áður séð verulegt frávik í arðgreiðslum og við sjáum mjög mikið frávik í póstum sem í það minnsta ég hefði haldið að við gætum haft vandaðri áætlunargerð um og betur undirbyggða.

Þetta vil ég nefna, virðulegi forseti, því að það skiptir gríðarlega miklu máli, hvort sem það er fjárlaganefnd, ríkisstofnanir eða bara almennt í landinu, að áætlunargerðin sé traust og öflug þannig að við getum byggt áætlanir okkar til lengri tíma. Miðað við þær sviptingar sem nú eru í ríkisfjármálum og mikla uppsveiflu vill þetta kannski ekki fara alveg eftir bókinni í þessum efnum en hlutverk fjáraukalaganna er einmitt að færa inn þennan tekjuauka sem rak á fjörur okkar, þó ekki óvænt vil ég segja.

Það hefur líka komið rækilega fram í umræðunni hér í dag að við í hv. fjárlaganefnd erum í því verkefni að rýna sérstaklega stöðu heilbrigðiskerfisins og heilbrigðisstofnana. Þess sjást líka með ákveðnum hætti merki í fjáraukalögum.

Við gerum breytingartillögur við útgjöld vegna samgöngumála vegna þess að á árinu urðu náttúruhamfarir og tjón á sjóvörnum sem er eðlilegt að við innleysum í fjáraukalögum. Við gerum einnig þá breytingartillögu að leggja til aukna fjárhæð vegna mannúðarmála og vegna ástandsins í Sýrlandi sem ég held að allir hljóti að hafa skilning á. Við færum inn í fjáraukalögin arðgreiðslur sem áætlað er að taka nú út úr Íslandsbanka sem er að fullu kominn í eigu ríkisins á þessu ári. Við tökum núna líka til aukafjárveitinga framlög til heilbrigðisstofnana til að mæta ýmsum óvæntum aðstæðum sem þær hafa búið við og við ekki endilega viðurkennt í áætlunargerð okkar hingað til en erum nú að reyna að bjarga þeirri fjárhagsstöðu.

Virðulegi forseti. Ég ætla svo sem ekkert að hafa mörg orð í framsögu um þetta nefndarálit annað en að segja að þetta er í síðasta sinn sem við vinnum þetta svona. Það má líka vera okkur til áminningar að við vöndum okkur þegar við erum að vinna að slíkri áætlunargerð eins og ég rakti áðan. Ég ætla að leyfa mér að segja við þessa umræðu, virðulegi forseti, að mér finnst vanta á að upplýsingastreymi til hv. fjárlaganefndar sé nægjanlega traust þegar hún vinnur að sínum málum. Það er nokkuð sem við eigum að taka föstum tökum og vinna með en ekki láta það hljóma eins og eitthvert vandamál.

Ég ætla að leyfa mér, virðulegi forseti, að opna á umræðu sem hefur valdið ákveðnum hita varðandi fjáraukann. Það er svo merkilegt að tillaga um 100 millj. kr. fjárveitingu til markaðsmála vegna lambakjöts dómineraði að mínu áliti öll hin atriðin í fjáraukalagafrumvarpinu. Ég held að það sé ágætt að við ræðum það eins og alla aðra hluti af því að þetta er umdeilt mál. Mitt sjónarhorn á það er einfaldlega það að við ákváðum sem þjóð að taka þátt í viðskiptabanni gegn Rússlandi vegna Úkraínudeilu og það hefur haft gríðarleg áhrif á búvörumarkaði Evrópu. Þar hafa orðið mikil vandamál. Við höfum áður, hvort sem það eru náttúruhamfarir eða vegna ákvarðana stjórnvalda, í gegnum mörg ár rétt hjálparhönd atvinnuvegum sem hafa orðið fyrir barðinu á slíku. Ég vil aðeins ítreka að mér finnst tillagan í þessu fjáraukalagafrumvarpi í fullu samræmi við það og í eðlilegu samhengi við það sem við höfum áður gert og miðað við þau mörgu stóru og miklu prógrömm sem t.d. Evrópusambandið hefur þurft að keyra til að greiða úr vandamálum á búvörumarkaði og koma til móts við bændur og verðfall afurða til bænda.

Mér finnst ástæða til að nefna þetta í framsöguræðu minni til að draga líka fram að þær ráðstafanir sem við erum að gera með þeirri tillögu eru á engan hátt með þeim hætti að við getum sett á það einhverja mælistiku um hvort nóg sé komið í markaðssetningu lambakjöts. Þetta eru viðbrögð vegna kostnaðar sem matvörugreinin verður fyrir vegna ákvörðunar stjórnvalda um að taka þátt í ákveðnu viðskiptabanni.

Virðulegi forseti. Ég hef lokið framsögu minni.