146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[18:41]
Horfa

Frsm. 3. minni hluta fjárln. (Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir) (Vg):

Frú forseti. Nú ræðum við fjáraukalagafrumvarp. Það er skammt stórra högga á milli. Ég get að mörgu leyti tekið undir það sem hv. síðasti ræðumaður nefndi um hvað á að vera í fjáraukalögum og hvað ekki. Það á bara að vera eitthvað sem engan veginn rúmast innan ramma hvers ráðuneytis. Verklagið hefur þó einhvern veginn verið þannig í gegnum tíðina að inn slæðast einhverjir liðir sem vissulega er hægt að segja að séu ekki beinlínis ófyrirséðir. Ef við ætlum að vera mjög stíf á meiningunni með það gætum við alveg sagt að þessar 50 milljónir sem við erum að setja í neyðaraðstoð til Sýrlands séu ekki ófyrirséðar. Stríðið í Sýrlandi er ekki nýtt. Að sjálfsögðu setjum við samt þessar 50 milljónir inn og ættum jafnvel að gera meira.

Stundum þarf neyðin að brjóta lög og við tökum afstöðu til margs þótt það eigi ekki beinlínis heima í fjáraukalögum. Auðvitað er samt ekki gott þegar ramminn er ekki virtur, hver svo sem hann er hverju sinni.

Ég er mjög ánægð með vinnu nefndarinnar og vil nota tækifærið til að þakka samstarfsfólki mínu í nefndinni fyrir mjög gott samstarf. Þetta er búin að vera mjög athyglisverð vinna við fjárlög og fjáraukalög og alveg ljóst að fólk getur náð málamiðlun. Það er hægt. Mér finnst það mikilsvert og mér finnst ánægjuleg tímamót í sögu Alþingis að þetta hafi tekist. Þau atriði sem eru tekin fyrir í fjáraukalögunum eru líka hluti af því að loka fjárlögunum.

Mig langar líka að þakka starfsfólkinu sem hefur unnið með okkur í þessu. Það er óhætt að segja að hvíldartíminn hafi ekki verið virtur hjá starfsfólkinu sem vinnur fram á rauðamorgun við að reyna að setja málið saman, eðli málsins samkvæmt, þar sem hlutirnir ganga hratt fyrir sig og flestir vilja reyna að klára fyrir jól.

Bara til að koma aðeins aftur inn á framlagið vegna stríðsins í Sýrlandi og vegna mannúðaraðstoðar verð ég að nefna þá dapurlegu staðreynd að 39.000 borgarar hafa flúið frá Austur-Aleppó og 6.000 dvelja í flóttamannabúðum. Hér er verið að reyna að búa til eitthvert húsaskjól þar sem við komum eitthvað að málum. Auðvitað er þetta dropi í hafið, það þyrfti að setja miklu meira inn í þennan pakka, eins og ég sagði áðan.

Af þessum 50 milljónum fara 25 milljónir til Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna og 25 milljónir til Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, þ.e. UNICEF í Sýrlandi.

Mig langar að koma aðeins inn á nokkur mál. Ég byrja á að fara í eigið álit þar sem fjáraukalagafrumvarpið kom ekki fram fyrr en 14. desember af því að þetta er hið síðara fjáraukalagafrumvarp. Ég verð að segja að þó að náðst hafi sátt í afgreiðslu þessa máls meðal allra flokka hefðum við Vinstri græn talið að setja hefði mátt mun meira fé en hér er að finna, m.a. í sjúkrahús og heilbrigðisstofnanir sem við vitum að stríða margar hverjar við rekstrarerfiðleika. Þá ætla ég ekki að gera lítið úr þeim stuðningi sem nú þegar hefur verið framkvæmdur með fjáraukalagafrumvarpinu, lokafjárlögum og svo í næstu fjárlögum.

Betur má þó ef duga skal er alveg óhætt að segja. Vegna umræðunnar fyrr í dag um Landspítalann er auðvitað í okkar verkahring að fylgja því vel eftir að allt skili sér eins og vera ber og líka að bregðast þá við strax og fylgja því eftir ef ekki gengur.

Við höfum oft rætt tekjurnar hér. Þær eru stórkostlega miklar í formi arðgreiðslna, stöðugleikaframlaga og annarra slíkra hluta sem taka kannski brátt enda að mjög mörgu leyti. Auðvitað skiptir máli hvernig þeim hefur verið varið. Við höfum ekki verið á eitt sátt um það. Eitt af hinu smáa í stóra samhenginu er t.d. fjárveiting til Menntaskólans á Akureyri sem á að standa straum af kostnaði við að breyta starfsári skólans. Hún er allt of lítil, það liggur fyrir, og nægir ekki til verkefnisins sem þýðir að skólinn mun þurfa að taka af rekstrarfé sem við þekkjum að er ekki nægjanlegt hjá þessum framhaldsskóla frekar en mörgum öðrum. Þetta getur þýtt í ekki umfangsmeiri rekstri að svigrúmið sé ekki nægilegt þegar sultarólin hefur verið hert til nokkuð margra ára. Flestir skólar og stofnanir ríkisins kvarta m.a. yfir því að fá aldrei nema u.þ.b. 80% af launabótum bætt. Þegar koma, eins og núna, verðlagsbreytingar, kjarasamningar eða eitthvað slíkt telja stofnanir nærfellt alltaf þegar þær koma á fund fjárlaganefndar að þær fái ekki nema hluta bættan.

Ég hefði líka viljað sjá meira fé renna til starfsemi Landhelgisgæslunnar. Ég hef áhyggjur af stofnuninni. Hún gegnir veigamiklu hlutverki í öryggis- og auðlindamálum þjóðarinnar og mér finnst það skylda okkar að standa betur að rekstri hennar og hefði eins og ég segi viljað sjá meira. Það hefur komið fram hjá forstjóra Gæslunnar að hann telji að það þurfi í kringum 300 milljónir á næsta ári bara til þess að geta haldið sjó, þ.e. haldið þyrlunni til viðbótar og skipinu sem hefur auðvitað sótt sér tekjur annað en ljóst er að ekki næst í á næsta ári. Það horfir kannski betur á árinu 2018 þó að það sé ekki í hendi en það þarf sem sagt að taka á þessu. 100 milljónir koma inn í gegnum fjárlögin og 75 milljónir hér. Það er vissulega eitthvað upp í fjárþörfina og ég vona að þetta verði ekki til þess þrátt fyrir að það vanti upp á að annaðhvort þurfi að segja upp samningum um þyrluna eða leggja skipinu.

Við Vinstri græn hefðum viljað sjá að öryrkjar hefðu fengið eingreiðslu núna í desember, ekki ósvipaða og launþegar fá á þessum tíma. Það hefur áður verið gert. Fyrrverandi ráðherra, Guðbjartur Hannesson heitinn, gerði það þannig að það eru fordæmi fyrir því. Eins og við höfum talað um hér áður sér hver og einn að laun öryrkja eru ekki boðleg. Eingreiðsla af þessu tagi kostar of lítið til að við tökum hana ekki inn, kostar í kringum 900 milljónir að mér skilst. Ég hefði gjarnan viljað sjá þær koma hér. Við eigum að sjá til þess að framfærsluþörf öryrkja njóti viðurkenningar í samfélaginu og að greiðslan sé í samræmi við hana.

Mig langar líka að koma inn á breytingar varðandi bæjarbryggjuna á Siglufirði. Hér er gerð tillaga um ákveðna fjárhæð sem ég hef efasemdir um að sé rétt reiknuð. Við þurfum að kalla eftir frekari gögnum hvað það varðar til að mæta þessu. Þetta er 60 ára gömul bryggja sem var orðin hættuleg. Það voru gerðar miklar endurbætur á henni og hún var vígð rétt fyrir kosningar. Þetta er aðallöndunarbryggjan á Siglufirði og þetta snerist um að fyrir framan bryggjuna var fullt af sandi og það þurfti að dýpka því að mjög varasamt var fyrir skipin að leggjast að henni. Til að stefna ekki öryggi sjófarenda í hættu var ákveðið að ráðast í framkvæmdirnar, þ.e. að dýpka, þrátt fyrir að ekki væri heimild á fjárlögum fyrir því. Auðvitað eru ekki góð vinnubrögð að framkvæma fyrst og spyrja svo en þarna var ljóst að mannvirkið hefði ekki nýst svo öruggt væri ef þetta hefði ekki verið gert. Hluti af þessu öllu saman er líka að það eru breytt lög. Hún datt út af samgönguáætluninni þegar lögin breyttust árið 2003, sem tóku reyndar ekki gildi fyrr en 2008, en svo komu ný lög, hafnalög, í desember 2014. Þá var hún styrkhæf aftur og þá var ráðist í þetta af fullum krafti. Ég held að við þurfum að skoða þetta betur. Fé til hafnarframkvæmda hefur verið mjög af skornum skammti í mörg ár. Auðvitað eru margar ástæður fyrir því, ekki bara hrunið heldur var þetta líka áður, hafnirnar voru ekki nægilega styrktar.

Ég gagnrýndi líka að ekki er nægjanlegt fé vegna þessara nýju laga í fjárlögunum. Það er beinlínis tekið fram í texta í fjárlögunum að fé vanti til þess að taka á móti öllum þeim umsóknum sem nú þegar er ljóst að komi inn til Vegagerðarinnar þannig að það er viðurkennt að þarna vanti töluvert fjármagn. Þetta er eitt af því sem sveitarfélög geta þá ekki ráðist í af því að þau hafi ekki bolmagn til þess ein.

Tillaga um 120 millj. kr. heimild vegna greiðslu skaðabóta til verktaka sem vann að undirbúningi að byggingu Húss íslenskra fræða er líka nokkuð sem við þurfum að ræða hér og kannski læra af fyrst og fremst — vegna þess að það var hætt við. Þetta eru miklir peningar og margt hægt að gera við þá. Þetta er nokkuð sem er verulega mikilvægt að athuga þegar ríkisstjórnarskipti eiga sér stað. Ef einhver verkefni eru komin vel á veg eða hafin sem ný ríkisstjórn sér ekki ástæðu til að halda áfram með hverju sinni held ég að þetta sé eitt af því sem við þurfum að taka til greina. Erum við tilbúin í svona fórnarkostnað? Þetta eru miklir peningar. Við erum að tala um litlar fjárhæðir til margra aðila, þetta eru stórar upphæðir. Ég held að við þurfum að skoða það mjög vandlega.

Ég get ekki látið hjá líða að taka aðeins upp og taka undir 4. minni hluta varðandi barna- og vaxtabætur eins og ég ræddi við fjárlagagerðina. Það er til háborinnar skammar að skerðingarmörkin skuli ekki hafa verið uppfærð. Allt of margir falla fyrir borð bara vegna þess að skerðingarmörkin hafa ekki verið hækkuð. Þau eru afar lág, 200.000, þegar barnabætur byrja að skerðast. Það er undir lágmarkslaunum, meira að segja undir öryrkjataxtanum ef maður getur talað svo. Það er algjörlega óásættanlegt.

Að lokum er nokkuð sem maður gleðst yfir, sem er gott fyrir jólin, og það er sú ákvörðun að ríkissjóður ætlar að leggja til fjármuni til kaupa á jörðinni Felli sem skartar Jökulsárlóni sem er, eins og við þekkjum, ein af hinum óviðjafnanlegu náttúruperlum suðurstrandarinnar. Mér finnst gott að vita af því að ríkið verði með eignarhald á þessari þjóðargersemi. Ég tel reyndar, og hef sagt það nokkuð oft, mikla og ríka ástæðu til þess, og við sjáum það í ljósi fregna af kaupum á hluta af Grímsstöðum á Fjöllum, mikilvægt að við römmum inn einhverja sýn á það hvort við viljum kaupa þær perlur sem eru til sölu eins og Geysir sem mér finnst eiga að vera í eigu ríkisins en ekki einhverra einkaaðila sem geta heft för fólks eða rukkað fyrir hana.

Forseti. Ég er að hugsa um að láta þetta gott heita. Það er fátt hægt að segja um eitthvað sem búið er að gera. Hins vegar væri hægt að bæta við fleiru sem við Vinstri græn og fleiri vildum gjarnan gera en þetta er partur af samkomulaginu og það er bara vel að við getum þó kreist eitthvað hér inn sem hefði kannski annars ekki verið.