146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjáraukalög 2016.

10. mál
[19:28]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Við erum að ræða um fjáraukann og eins og fram hefur komið í máli margra hv. þingmanna eru þessi lög þannig hugsuð að þau eiga að standa undir ófyrirséðum útgjöldum sem geta orðið einhver eins og gefur að skilja. Það hefur verið mál manna að það eigi að reyna að halda þessum breytingum sem minnstum eða hafa fjárhæðirnar þarna ekki miklar heldur reyna að hafa alla áætlunargerð ríkisins þannig að við vitum nokkurn veginn hvað er að fara að gerast ár frá ári og að við gerum ráð fyrir því í fjárlögum. Svo eru fjáraukalögin þess eðlis að þau eiga að vera fyrir því sem er ófyrirséð.

Það er margt í þessum fjáraukalögum sem vert er að tala um. Ég hef hlustað á ræður þingmanna sem hafa verið mjög gagnlegar hvað það varðar.

Ég ætla ekki að halda langa ræðu um allt það sem er í þessu frumvarpi. Ég vil þó byrja á að nefna það sem er mjög stór partur af frumvarpinu, ófyrirséð útgjöld í þeim skilningi að við hefðum ekki getað gert ráð fyrir þeim ár frá ári en er stór útgjaldaliður, stöðugleikaframlagið svokallaða sem er sett inn í því skyni að jafna lífeyrisréttindi aðila á opinbera markaðnum við aðila á almenna markaðnum.

Það frumvarp ræðum við seinna en mig langar að tala um það stuttlega af því að mér hefur fundist umræðan um þau mál ansi einsleit. Ég tek fram að ég er meðmælt frumvarpi um jöfnun lífeyrisréttinda og það hefur svo sem komið fram. Mér hefur fundist þeir sem gagnrýna það og tala á móti vera helst ákveðnar stéttir. Þær eru að tala um sinn hag, og það er eðlilegt, en það gleymist að tala um hvað Alþingi ætti þá að gera ef við værum ekki að jafna lífeyrisréttindi á þann hátt sem fyrir liggur í því frumvarpi og er gert í þessum fjáraukalögum.

Hvað værum við þá að horfa upp á? Þá værum við að horfa upp á iðgjaldahækkun, sem þýðir hvað? Sem þýðir að launþegar myndu greiða meira í lífeyrissjóð. Nú er iðgjaldið um 15% mánaðarlega en þeir myndu þá greiða um 20% iðgjald mánaðarlega í lífeyrissjóð. Það þýðir að í hverri fimm daga vinnuviku værum við að vinna einn dag bara fyrir það sem við værum að setja inn í lífeyrissjóðinn okkar. Viljum við bjóða fólki upp á það, t.d. ungu fólki og bara öllum sem horfðu þá upp á tekjuskerðingu sem þessu næmi fyrir sig í dagsdaglega lífinu sínu? Þetta er hugsað þannig að það er lagt inn og við tökum það út seinna meir á lífsleiðinni. Mér finnst mjög ábyrgt að nota stöðugleikaframlagið til þess að jafna út lífeyrisréttindin á þann hátt sem nú er lagt til. Það er gert með leyfi þeirra fjáraukalaga sem nú liggja fyrir.

Annar þáttur í þessum fjárauka sem ég hef reyndar nefnt áður og er ekki nógu sátt við er aukaframlag sem reiknast til atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytisins í gegnum hið sérstaka markaðsátak á erlendum mörkuðum sauðfjárafurða — þetta heitir Matvælalandið Ísland — og fær aukalega 100 milljónir til sem eiga að fara í aukamarkaðssetningu erlendis á lambakjöti. Þar eru fyrir aðrar 100 milljónir í fjárlögum. Allt í einu er komin 100% hækkun á þessu. Það er skýrt á ýmsan hátt, ég hef fengið nokkrar skýringar hvað þetta varðar. Fall á norskum mörkuðum nefndi einhver. Svo skilst mér að það hafi líka verið skýrt með viðskiptabanni við Rússland og átökum í Úkraínu þannig að þetta er allt saman mjög óljóst, finnst mér. Mér finnst líka mjög óljóst og vont að ekki liggi fyrir nákvæmlega hvernig þessar fjárhæðir eiga að hjálpa til við það að verðfall verði ekki á íslensku kindakjöti innan lands. Ég sé ekki hvernig eitt leiðir af öðru í því að setja 100 milljónir í markaðsátak sem hið svokallaða Matvælaland Ísland sér um, hvernig það muni redda því að verð innan lands haldist uppi. Ég hef svo sem gert grein fyrir þessu áður en vildi halda því til haga.

Í ljósi þess hve vel fjárlög hafa unnist vil ég líka halda til haga þessum skringilegu aðstæðum þar sem starfsstjórn leggur fram fjárlagafrumvarp. Starfsstjórnin hefur ekki meiri hluta en allir flokkar á Alþingi hafa unnið ötullega að frumvarpinu og það er fjárlaganefnd til hróss að þar hafa allir sýnt á spilin og ekki verið í neinum leikjum, a.m.k. ekki í þeirri nefnd, hvað varðar það að vinna af heilindum saman að fjárlagafrumvarpinu. Enginn er eiginlega sáttur við niðurstöðuna í báða enda. Sumum finnst of lítið fjárfest, öðrum finnst fjárlögin allt of bólgin. En er það ekki ágæt málamiðlun í jafn stóru máli að vera ekki að fara öfganna á milli? Ég er vongóð og hlakka til að sjá hvernig reynir á þessi fjárlög sem við erum vonandi að fara að samþykkja.

Í því samhengi vil ég segja að ég mun ekki leggjast gegn þessari 100 millj. kr. aukningu til matvælalandsins út af því samkomulagi sem er í fjárlaganefnd af því að við erum að vinna þetta allt á annan hátt. Þetta er dálítið stór biti sem ég þarf þá dálítið að gleypa eins og aðrir gera með ýmsa aðra fjárlagaliði. Ég vildi að þetta kæmi fram í ræðu frá okkur.