146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[20:14]
Horfa

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Við erum að takast á við fyrsta frumvarp sem sett er fram samkvæmt nýjum lögum um opinber fjármál. Þetta eru allsérstakar aðstæður, það verður að segjast eins og er. Eðli málsins samkvæmt, þar sem staðan er eins og hún er og við þekkjum öll mætavel, verðum við að halda því til haga að enginn fær hér sitt fram eins og hann vildi, eins og hefur verið rakið af öðrum þingmönnum.

Ég vil þó segja að við höfum haft áhrif á frumvarpið til hins betra. Á því eru gerðar góðar breytingartillögur sem við munum samþykkja en við munum sitja hjá við frumvarpið í heild sinni vegna þess að það byggir á ríkisfjármálastefnu þeirra sem eru að fara frá völdum eða eru alltént ekki með meirihlutaumboð sem stendur.

Ég vil eins og aðrir þakka aftur fyrir samstarfið í nefndinni og formanninum sérstaklega. Það var ekki alltaf auðvelt að halda utan um mannskapinn. Þetta var mjög viðkvæmt og brothætt stundum en þetta er að hafast og mér finnst frábært hjá þinginu og okkur alþingismönnum að það skuli vera þannig.