146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

útlendingar.

29. mál
[20:30]
Horfa

Frsm. allsh.- og menntmn. (Þórunn Egilsdóttir) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti með breytingartillögu um frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga, nr. 80/2016.

Nefndin hefur fjallað um málið. Frumvarpið felur í sér frestun á gildistöku 1. málsliðar 2. mgr. og 3. mgr. 35. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, til 1. júlí 2017. Ákvæðin fjalla annars vegar um að kæra á tilteknum ákvörðunum Útlendingastofnunar fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar og hins vegar um heimild til að setja reglugerð um meðferð kærunefndar útlendingamála á beiðnum um frestun réttaráhrifa. Þess í stað er lagt til skýrt ákvæði til bráðabirgða um að kæra fresti ekki réttaráhrifum ákvörðunar Útlendingastofnunar um að útlendingur skuli yfirgefa landið í þeim tilvikum þegar stofnunin hefur metið umsókn hans bersýnilega tilhæfulausa og hann kemur frá ríki sem er á lista stofnunarinnar yfir örugg ríki, samanber b-lið 1. mgr. og 2. mgr. 29. gr. Þá er einnig áréttað að hið sama gildi um ákvörðun sem Útlendingastofnun tekur samkvæmt lokamálslið 2. mgr. 35. gr. sem snýr að ákvörðun stofnunarinnar um að fresta ekki framkvæmd brottflutnings útlendings.

Við meðferð frumvarpsins í nefndinni komu fram þær upplýsingar að afar mikilvægt væri að gera þessar breytingar þar sem ella getur skapast réttaróvissa um í hvaða tilfellum kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar frestar ekki réttaráhrifum ákvörðunarinnar. Nefndin áréttar að gríðarleg fjölgun hefur orðið á umsóknum um alþjóðlega vernd hér á landi og að af þeim sökum er mikilvægt að réttarstaðan um þetta efni sé skýr.

Nefndin bendir á að þrátt fyrir að ákvæði 1. málsliðar 2. mgr. 35. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, sem taka gildi 1. janúar nk., sé skýrt um að kæra fresti ekki réttaráhrifum er óljóst til hvaða tilvika reglan nær. Að mati nefndarinnar er afar mikilvægt við ríkjandi aðstæður að skýrt liggi fyrir í hvaða tilvikum kæra á ákvörðun Útlendingastofnunar frestar ekki réttaráhrifum. Nefndin leggur því til að gildistöku 1. málsliðar 2. mgr. 35. gr. og 3. mgr. 35. gr. verði frestað til 1. apríl 2017 og að fram að því gildi að meginstefnu sömu reglur og nú eru í ákvæði til bráðabirgða IV í lögum nr. 96/2002, um útlendinga. Með því móti er gefinn hæfilegur tími til að yfirfara 35. gr. laganna í heild og skýra nánar til hvaða tilvika regla 2. mgr. 35. gr. skuli ná. Að mati nefndarinnar eru þrír mánuðir hæfilegur tími og leggur hún til breytingartillögu þess efnis.

Nefndin áréttar að þrátt fyrir frestun á gildistöku ákvæðisins sé mikilvægt að allir umsækjendur um alþjóðlega vernd fái áfram einstaklingsbundna og vandaða málsmeðferð.

Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með áðurgreindri breytingartillögu. Undir þetta skrifar auk þeirrar sem hér stendur öll nefndin sem stendur að nefndarálitinu, þ.e. Nichole Leigh Mosty, Guðjón S. Brjánsson, Bryndís Haraldsdóttir, Pawel Bartoszek, Jón Gunnarsson og Vilhjálmur Bjarnason, og Þórhildur Sunna Ævarsdóttir og Svandís Svavarsdóttir með fyrirvara.

Að lokum vil ég fá að þakka nefndinni fyrir einstaklega gott samstarf, markvissa og góða vinnu.