146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

útlendingar.

29. mál
[20:36]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég þakka nefndinni fyrir stutt en ánægjulegt samstarf. Við náðum góðu samkomulagi á u.þ.b. 15 mínútum, trúi ég, um það hvernig allir gætu gengið nokkurn veginn sáttir frá borði með því nefndaráliti sem liggur fyrir okkur í dag.

Ég er sátt í anda allra þeirra tillagna sem við höfum séð í dag sem við höfum samþykkt með semingi, nægilega sátt til að standa að þessu þar sem tíminn sem þetta ákvæði skal vera í gildi hefur verið styttur um helming sem mér finnst leggja jákvæðan og mikilvægan þrýsting á löggjafann um að bæta úr útlendingalöggjöfinni hið snarasta sem og bæta úr þeirri réttaróvissu sem virðist vera uppi um hvenær megi beita frestun réttaráhrifa og hvenær ekki. Ég vil hins vegar árétta að mér finnst vonlaust að í staðinn fyrir að búa bara vel að þeim sem hingað koma og sækja um alþjóðlega vernd og hafa nægilega góðar aðstæður til að taka á móti öllum þeim sem kjósa að sækja um vernd hér á Íslandi séum við að leita leiða til að senda fólk sem fyrst úr landi og að það sé okkar lausn til þess að geta tekið vel á móti þeim örfáu hræðum sem þó rata hingað. Það er neyðarástand úti um allan heim út af flóttamannastraumi. Út af landfræðilegri stöðu, vegna stöðunnar í Schengen sem eyja í útnáranum, hefur Ísland sloppið við það sem margar þjóðir hafa í raun og veru þurft að meðhöndla sem er mikill fólksfjöldi sem hefur þurft að taka á móti. Sá hópur sem hingað leitar er ekki nema brotabrot af því sem flestar þjóðir í Evrópu, hvað þá nágrannaþjóðir þeirra stríðshrjáðu ríkja þar sem uppruni flestra flóttamanna er, hafa þurft að aðstoða. Mér finnst frekar svekkjandi að við séum að koma okkur undan því að veita eðlilega málsmeðferð fólki sem kemur hingað og sækir um alþjóðlega vernd í staðinn fyrir að hafa aðstæður fyrir hendi til að við getum tekið á móti öllum og veitt öllum sanngjarna málsmeðferð. Núgildandi útlendingalög innihalda ákvæði sem leyfa flýtimeðferð. Við þurfum ekkert að flýta þessu eitthvað meira.

Ég er ánægð með að nefndin áréttar að áfram skuli fólk fá einstaklingsbundna og vandaða málsmeðferð af því að ég hef áhyggjur af því að fólk verði stimplað eftir vegabréfum og sent burt án þess að fá sanngjarna málsmeðferð, einfaldlega til þess að losna við óþægilegar týpur sem koma ekki frá réttu löndunum. Ég tel að með því að stytta tímann sem bráðabirgðaákvæðið gildir niður í þrjá mánuði og árétta að þetta verði að vera í lagi sé niðurstaðan ásættanleg í bili þótt þetta veki mig vissulega til umhugsunar um að mikið þurfi að beita sér til að bæta útlendingalögin enn meira en gert hefur verið þar sem enn vantar upp á. Ég skal ekki tefja þingheim lengur, eftir áramót einhvern tímann skal ég tala um allt það sem mig langar til að breyta í útlendingalöggjöfinni. Ég þakka bara fyrir stutt og ánægjulegt samstarf og mun sitja hjá við málið í heild en standa með þessari breytingartillögu.