146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

ýmsar forsendur fjárlagafrumvarps 2017.

2. mál
[21:17]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég sagði í ræðu fyrir skömmu að fimm ára ríkisfjármálaáætlun væri pólitísk hagfræði og með sama hætti er innihald fjárlaga hrein og klár pólitísk hagfræði. Umræðan um fjárlögin kristallar ólíka hugmyndafræði pólitískra flokka. Hana er engum óhollt að heyra, hvorki okkur hv. þingmönnum né þjóðinni. Fjárlög án pólitískrar umræðu væru kyndugur viðburður.

Eins og kom fram hjá hv. formanni fjárlaganefndar, Haraldi Benediktssyni, fyrr í dag eru aðstæður við fjárlagagerðina núna sérstæðar og áhugaverðar. Jákvætt vinnuumhverfi án meirihlutastjórnar smitar yfir í fjölmargar ákvarðanir þingsins, þar á meðal fjárlagafrumvarp, bandorm og fjáraukalagafrumvarp með og án breytingartillagna einstakra flokka. Ánægjuleg og tíðindamikil samstaða hefur náðst milli sjö flokka um sameiginlegan skilning á lágmarkslausnum ýmissa vandamála. Þetta er málamiðlun milli flokka með að hluta til gjörólíka hugmyndafræði. Við Vinstri græn erum í þessum hópi og höfum staðið við samkomulagið, samanber alla atkvæðagreiðsluna. Það sem samið var um verður að veruleika. Þingið hefur sýnt sínar bestu hliðar eins og hv. þm. Haraldur Benediktsson sagði fyrr í dag. Um leið höfum við gert grein fyrir sérstöðu okkar Vinstri grænna eins og vera ber við umræðu um ríkisfjármál. (Forseti hringir.)

Herra forseti. Vel rökstuddar breytingartillögur við eitt mikilvægasta frumvarp þingsins um leið og heiðursmannasamkomulag um sameiginlega grunnniðurstöðu fjárlaganefndar er virt mynda til samans áhugaverða sýnitilraun í þingbundnu lýðræði. Það stendur eftir sem grunntónn þessa sögulega dags.