146. löggjafarþing — 13. fundur,  22. des. 2016.

Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins.

6. mál
[21:24]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (um atkvæðagreiðslu):

Forseti. Þegar þetta mál kom fram fyrst á síðasta kjörtímabili var lagt til að sett yrði á fót nefnd sem myndi halda áfram að vinna með málið á milli kjörtímabila. Því var hafnað. Því miður eru miklir vankantar á málinu og lítið tillit hefur verið tekið til þeirra sem hafa kallað eftir að tekið væri mark á þeim ábendingum sem hafa komið frá þeim. Þetta er unnið með allt of miklu hraði. Ekki hefur gefist tími til að fara almennilega yfir þær umsagnir sem hafa borist og fá gesti. Ekki hefur verið búin til sú nauðsynlega sátt sem til þarf til að fara í svona stórar breytingar. Eins og hefur komið fram hefur ekki heldur verið farið nægilega vel yfir þau efnahagslegu áhrif sem þetta getur haft. Því get ég hvorki setið hjá né greitt þessu leið, málið er ekki tilbúið, og ég mun greiða atkvæði gegn því.