146. löggjafarþing — 14. fundur,  22. des. 2016.

fjárlög 2017.

1. mál
[22:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Haraldur Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögum við fjárlagafrumvarp við 3. umr. og geri nú grein fyrir þeim tillögum sem nefndin hefur orðið ásátt um að flytja. Að sumu leyti helgast þær af öðrum samþykktum fyrr í kvöld þannig að óhjákvæmilegt var að breyta framkomnu fjárlagafrumvarpi og þeim atriðum sem þar snertir. Í fyrsta lagi gerir nefndin tillögu um að færa raunverulega til baka hluta af þeim tilfærslum sem gerðar voru tillögur um fyrir 2. umr. um undirbúning og hönnun á byggingu á Stjórnarráðsreit. Ástæða þess er að með því að taka fjármuni alveg af því verkefni komumst við ekki áfram í hönnunarferli þess en sú samþykkt er hluti af ályktun Alþingis um afmælishald.

Í öðru lagi gerum við tillögu um ákveðna millifærslu í kerfinu, milli ráðuneyta. Á fyrra þingi voru samþykkt höfundaréttarlög þar sem ákveðið var að viðurkenna höfundarétt með þeim hætti að ríkissjóður legði árlega til í sjóð tillag til að greiða fyrir höfundarétt sem er í eðli sínu eignarbundin réttindi, voru áður vistuð í menntamálaráðuneytinu en verður nú gerð tillaga um að vista í fjármálaráðuneyti.

Þrjár síðustu tillögur sem við gerum að þessu sinni eru vegna laga sem við samþykktum áðan um fjármögnun verkefnisins NPA upp á 67 milljónir. Síðan koma tvær breytingartillögur um vexti, ábyrgðir og lífeyrisskuldbindingar og almennan varasjóð um sértækar ráðstafanir er leiða af samþykkt hér fyrr í kvöld af þingmáli um lífeyrissjóði o.s.frv.