146. löggjafarþing — 14. fundur,  22. des. 2016.

jólakveðjur.

[23:03]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Virðulegur forseti. Í nafni okkar alþingismanna þakka ég forseta Alþingis kærlega fyrir gott samstarf á þessu desemberþingi og ekki síður fyrir röggsama stjórnun. Í þeim efnum hefur hann notið langrar þingreynslu sinnar. Ég vil einnig færa honum sérstakar þakkir fyrir samstarf við okkur þingflokksformenn.

Forseti vor ólst upp í sveit sem státar af því að þar er að finna forystufé á flestum bæjum. [Hlátur í þingsal.] Eiginleikar forystukinda eru einstakir. Þær eru ratvísar, áræðnar og greindar og leiða fjárhópinn og forða honum frá hættum. Tel ég að forseti vor hafi nokkuð lært af forystukindinni í uppvexti sínum og að kostir Þistilfirðingsins hafi nýst nokkuð vel undanfarnar vikur.

Ég vil taka undir þau orð sem margir þingmenn hafa látið falla hér í dag um að það hefur verið sérlega ánægjulegt að verða vitni að þeim góða starfsanda sem hefur ríkt á þinginu. Allir hafa lagt sig fram um að við mættum ljúka afgreiðslu þeirra mála sem brýnt var að afgreiða fyrir jólahlé þingsins. Vitaskuld hefur það þýtt að þingmenn hafa þurft að teygja sig langt til að ná sátt um málin. Ég vona einlæglega að starfið og það andrúmsloft sem hér hefur ríkt síðustu tvær vikurnar sé fyrirboði breyttra samskipta og samstarfs á Alþingi.

Ég vil að lokum þakka virðulegum forseta hlý orð í garð okkar alþingismanna og óska honum og fjölskyldu hans gleðiríkra jóla og farsældar á komandi ári. Ég vil líka þakka starfsfólki Alþingis fyrir alla aðstoðina við okkur alþingismenn og færa fjölskyldum þess bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár.

Ég bið alþingismenn um að taka undir jólaóskir og nýárskveðjur til forseta Alþingis, starfsmanna og fjölskyldna þeirra með því að rísa úr sætum. — [Þingmenn risu úr sætum.]

Gleðileg jól.