146. löggjafarþing — 16. fundur,  24. jan. 2017.

kosning forseta skv. 1. mgr. 3. gr. þingskapa.

[13:44]
Horfa

Forseti (Unnur Brá Konráðsdóttir):

Háttvirtir alþingismenn. Ég vil í upphafi þakka það traust sem mér er sýnt með kjöri sem forseti Alþingis. Ég mun leggja mig alla fram um að rísa undir ábyrgðinni sem fylgir þessu mikilvæga embætti og gera mér far um að sinna verkefninu af heilindum. Það er einstaklega ánægjulegt að taka við embætti forseta við þau tímamót að konur eru nú hátt í helmingur þingheims, eða 48%, sem er hæsta hlutfall kvenna á Alþingi hingað til.

Við komum nú saman eftir sérstakt tímabil í stjórnmálasögu landsins þar sem óvenjulangur tími leið frá alþingiskosningum þar til ríkisstjórn var mynduð. Við getum öll verið stolt af þeim vinnubrögðum sem Alþingi sýndi í desember þar sem fulltrúar allra flokka stóðu undir ábyrgð sinni og unnu saman að því að afgreiða þau mál sem nauðsynlegt var að lögfesta áður en nýtt ár gekk í garð. Ég trúi því að sú samvinna sem við höfum nú öll reynt að hægt sé að ná varðandi störf þingsins marki störf Alþingis á komandi misserum. Það er mín reynsla af störfum Alþingis að vel er hægt að ná góðu samstarfi þvert á flokka um afgreiðslu mála. Vilji er allt sem þarf.

Ég mun leggja áherslu á að eiga náið samstarf við formenn þingflokka, formenn flokka, þingmenn og starfslið Alþingis. Til að vel takist til varðandi stjórn þingsins þarf að ríkja gott samkomulag um þingstörfin hjá þingmönnum öllum og gagnkvæmt traust þarf að ríkja milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég hlakka til samstarfsins við ykkur öll.

Ég vil greina hv. þingmönnum frá því að ég vænti þess að forsætisnefnd geti afgreitt starfsáætlun fyrir vetrar- og vorþing seinna í þessari viku og verður hún þá birt strax á vef Alþingis.

Ég vil við þetta tækifæri óska ríkisstjórninni velfarnaðar í störfum og vona að samstarf hennar og Alþingis verði gott og árangursríkt. Ég óska nýjum hæstv. ráðherrum sérstaklega til hamingju með ný verkefni um leið og ég þakka þeim sem úr ríkisstjórn hverfa fyrir störf þeirra.

Ég vil einnig þakka fráfarandi forseta, Steingrími J. Sigfússyni, og forsætisnefnd fyrir góð störf. Ég endurtek þakkir mínar til þingmanna fyrir að fela mér svo mikilvægt verkefni og læt í ljós og ítreka vilja minn til þess að eiga gott samstarf við þingmenn alla hvar í flokki sem þeir standa.