146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:31]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Óttarr Proppé) (Bf):

Virðulegi forseti. Ástkæra Alþingi. Góðir Íslendingar. Það er alltaf sérstök tilfinning að standa hér í ræðustól á hinu háa Alþingi og það á alveg sérstaklega við þegar þing er sett, stefnuræða hæstv. forsætisráðherra er rædd og ný ríkisstjórn tekur til starfa. Það skal alveg viðurkennast að þessi tilfinning er enn sterkari núna þegar sá sem hér stendur og minn flokkur, Björt framtíð, er þátttakandi í ríkisstjórn í fyrsta skipti. Björt framtíð á hlut að máli í stefnumörkun ríkisstjórnarinnar og stjórnarsáttmálanum sem liggur að baki ræðu hæstv. forsætisráðherra. Ekki er laust við að því fylgi stolt en líka aukaskammtur af auðmýkt að standa í þessum sporum hér í kvöld. Það hefur oft áður gustað um íslensk stjórnvöld, en það er óhætt að segja að síðustu mánuðir, já, eiginlega allt síðasta ár, hafi boðið upp á óvæntari og óvenjulegri vendingar en meira að segja við Íslendingar eigum að venjast. Það er harla óvenjulegt að við séum að ræða stefnuræðu forsætisráðherra núna, tæpum þremur mánuðum eftir kosningar, hvað þá eftir að þing er búið að koma saman og starfa vikum saman án formlegs meiri hluta og afgreiða fjárlög ársins hvorki meira né minna.

Eftir upplausn vorsins í fyrra, ákvörðunina um að flýta kosningum og haustkosningar í lok október, upphófst tímabil óvissu með endalausum stjórnarmyndunarviðræðum í allar áttir. Úrslit kosninganna settu tóninn þar sem niðurstöður kosninganna voru mjög óljósar. Enginn skýr meiri hluti lá fyrir. Það var á ábyrgð okkar þingmannanna og þingflokka að ná saman um starfhæfa ríkisstjórn. Eftir langa meðgöngu er ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar tekin til starfa.

Ég er þess alveg fullviss að þetta verður góð ríkisstjórn. Til hennar er ekki stofnað í flýti eða með flumbrugangi. Ég er stoltur af stjórnarsáttmálanum sem endurhljómar í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra. Þessi ríkisstjórn er stofnuð um frjálslynd og framfarasinnuð gildi. Við leggjum áherslu á fjölbreytni og jafnvægi, á mannréttindi og framtíðina. Í hverjum málaflokknum á fætur öðrum er horft til þess að allir landsmenn eigi aðgengi að þjónustu og réttindum óháð uppruna, búsetu eða efnahag. Aðgengi að samfélaginu er lykilstef. Í stjórnarsáttmálanum er skýr áhersla á langtímahugsun, stöðugleika og sjálfbærni. Þetta þykja mér göfug gildi og mjög mikilvæg.

Í mínum huga er það ein af grunnskyldum okkar sem störfum í stjórnmálum að taka ábyrgð og fara vel með það vald sem við erum kosin til að fara með. Það er ekki sama hvernig það er gert. Björt framtíð er stofnuð utan um hugmyndina um að bæta vinnubrögðin, að bæta samvinnu og að nálgast stjórnmálavafstrið sem þjónustustarf. Við tökum þetta mjög alvarlega og tökum þátt í myndun ríkisstjórnarinnar með það að leiðarljósi. Þessi hugsun speglast vel í sáttmála ríkisstjórnarinnar. Við ætlum að vinna vel og gera betur.

Fyrsta verk ríkisstjórnarinnar var að staðfesta siðareglur ráðherra. Til stendur að opna bókhald Stjórnarráðsins. Þetta er raunveruleg ætlun okkar. Ríkisstjórnarflokkarnir eru samstiga um að gera betur. Okkur er alvara og áherslan á bætt vinnubrögð er svo langt frá því að vera orðin tóm.

Það væri að æra óstöðugan að endurtaka áherslur ríkisstjórnarinnar úr stjórnarsáttmálanum enda hefur hæstv. forsætisráðherra nú þegar gert það ágætlega í sinni ræðu. Ég hvet alla til að kynna sér sáttmálann og hvet til þess að okkur verði haldið við efnið næstu árin. Ekki veitir af. Og þetta er samvinnuverkefni.

Björt framtíð ákvað að leggja áherslu á heilbrigðis- og umhverfismálin í stjórnarsamstarfinu. Ég treysti því að hæstv. umhverfisráðherra fari yfir sinn mikilvæga málaflokk hér á eftir. En ég get ekki látið hjá líða að minnast aðeins á þann málaflokk sem heyrir undir mig sem heilbrigðisráðherra. Eitt meginstefið í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í heilbrigðismálum er samhæfð, örugg og aðgengileg heilbrigðisþjónusta. Þrátt fyrir að heilbrigðisþjónustan á Íslandi sé að mörgu leyti mjög góð þá þarf að samhæfa hana enn betur og líta á alla þætti hennar sem hluta af sömu heild. Áform nýrrar ríkisstjórnar miða að því að tengja betur þjónustu heilsugæslu, sjúkrahúsa, heimaþjónustu og hjúkrunarheimila. Með því að styrkja heilsugæsluna, heimaþjónustu og hjúkrunarheimili, svokallaða grunnþjónustu, verður dregið úr þörf fólks til að sækja dýrari og flóknari þjónustu.

Ein mikilvæg leið til að auka aðgengi fólks að góðri þjónustu er aðgengi að ýmsum fagstéttum í framlínu heilsugæslunnar. Einkum má nefna sálfræðinga og sjúkraþjálfara. Betra aðgengi að sálfræðingum er liður í áherslum ríkisstjórnarinnar um bætta geðheilbrigðisþjónustu, ekki síst stuðning við börn og foreldra.

Íslenskur almenningur hefur margoft sýnt að uppbygging heilbrigðiskerfisins er forgangsmál. Ríkisstjórnin tekur undir þetta og setur málaflokkinn í sérstaka áherslu. Það eru forréttindi fyrir mig að fá að fara fyrir þessum mikilvægu málum á næstunni í samvinnu við allt það frábæra fólk sem starfar í geiranum.

Það er óhætt að segja að íslensk stjórnmál hafi sveiflast og þvælst í eins konar rússibanareið óvenjuleika undanfarið. Staðan er óvenjuleg og hún er ný. Öll þurfum við að tileinka okkur nýja siði. Við þurfum að þróa áfram samvinnu þvert á flokka, þvert á meiri hluta og minni hluta, og auka samráð um allt í samfélaginu. Við verðum að leggja áherslu á vönduð vinnubrögð, gagnsæi og heiðarleika. Það er hvorki lúxus né hjóm, þvert á móti er það algjör nauðsyn bæði fyrir okkur í ríkisstjórn og aðra flokka á Alþingi.

Það er engin ástæða til þess að óttast þetta. Við kunnum þetta allt. Ef það er eitthvað sem sá sem hér stendur hefur lært í endalausum stjórnmálaumræðum og stjórnarmyndunarumræðum upp á dag síðustu mánuðina þá er það að þessar breytingar til batnaðar eru til umræðu í öllum flokkum. Við erum öll að velta þessu fyrir okkur og ég vil meina að kjósendur hafi sent okkur skýr skilaboð um að gera betur með því að neyða okkur upp úr hjólförum vanans með óljósum niðurstöðum kosninga sem neyddu okkur til að fara út fyrir boxið. Mikið var það fallega gert af kjósendum og ég þakka fyrir þótt það hafi kostað og eigi eftir að kosta okkur stjórnmálamenn alls konar vesen og óþægindi og uppbrot á venjum og hefðum. Það er hollt og það er gott fyrir framtíðina. Hún er áfangastaðurinn og hana verðum við að einblína. Verum óhrædd að breyta. Vinnum saman. Gerum vel og verum góð. — Ég þakka þeim sem hlýddu. Góða ferð.