146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[20:39]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Það er sjálfsögð kurteisi að óska nýskipaðri ríkisstjórn velfarnaðar í starfi og vona að störf hennar verði þjóðinni til heilla.

En þegar það hefur verið sagt, þá er líka rétt að halda því til haga að hverjum og einum er í sjálfsvald sett hvernig hann efnir gefin loforð. Sama á við um flokka. Ef við berum saman kosningaloforð stjórnarflokkanna og stjórnarsáttmálann birtist nefnilega merkilegt ósamræmi. Stórfelld uppbygging heilbrigðis- og menntakerfis, viðamiklar kerfisbreytingar, þjóðaratkvæðagreiðsla um ESB-viðræður, breytingar á stjórnarskrá — þetta eru allt mál sem virðast hafa fundið sér nýjan og óvæntan farveg í stjórnarsamstarfinu. Flokkarnir lofuðu þessu fyrir kosningar en slík fyrirheit er ekki að finna ekki í sáttmálanum.

Við þekkjum nýleg dæmi úr matvælaframleiðslu þar sem kjötlokur voru án kjöts og brúnegg, með vistvænum stimpli, voru lítið annað en útlit. Þetta kölluðu menn vörusvik og vörunum var skilað. Því miður er ekki hægt að skila atkvæði jafnvel þótt leiddur hafi verið til valda í forsætisráðherrastólinn maður sem sat á mikilvægri skýrslu um gríðarleg undanskot Íslendinga til aflandseyja og annarri sem sýnir að ríkisstjórn sem hann sat í á síðasta kjörtímabili mokaði peningum í ríkasta hluta landsins í nafni leiðréttingar en skildi ungt og efnaminna fólk eftir.

Að undanförnu hefur mikið verið rætt um sterka stöðu efnahagslífsins og uppgang ríkisins. Vissulega hefur ýmislegt lagst með okkur. En málin vandast þegar talað er eins og þjóðin sé ein manneskja. Stundum henda atburðir sem láta okkur hrökkva við. Við áttum okkur á því að hér búa 340 þús. Íslendingar og þar skiptir hvert og eitt okkar máli. Allar landsins vísitölur og meðaltöl segja nefnilega aðeins litla sögu. Á bak við allar þessar tölur er fólk af holdi og blóði og fólk sem býr við allt of ólík kjör. Á Íslandi búa t.d. yfir 6 þús. börn við fátækt, kjör öryrkja eru óviðunandi og aldraðir verða margir að neita sér um læknisþjónustu sökum fjárskorts. Opinber þjónusta hefur einfaldlega laskast.

Við slíkar aðstæður verður að leggja áherslu á að jafna byrðar fólks. Þyngri á þá sem eru aflögufærir en hlífa þeim sem standa höllum fæti og venjulegu launafólki. Engin slík áform eru uppi, því miður, þvert á móti. Uppbyggingu innviða á svo að greiða með óljósum væntingum um bólgnara efnahagskerfi.

Þetta mun veikja hið norræna velferðarmódel, ójöfnuður mun aukast og arðurinn færast á æ færri hendur. Og það munu völdin þá gera líka. Við sjáum nú þegar að auðugustu einstaklingar landsins hreiðra um sig samtímis í sjávarútvegsfyrirtækjum, tryggingafyrirtækjum, fjármálafyrirtækjum, dagblöðum og nú síðast á óþroskuðum og viðkvæmum leigumarkaði.

Ísland er ríkt land og hér eru aðstæður til að skapa eitt samfélag fyrir alla. Það nægir ekki að ríða net sem grípur þá sem falla milli skips og bryggju, við verðum byggja samfélag sem aðstoðar fólk til sjálfsbjargar og gerir því kleift að byggja á styrkleikum sínum, samfélag þar sem allir fá tækifæri og verkefni við hæfi. Þetta er ekki einungis réttlætismál, heldur er samfélag jöfnuðar langlíklegast til að vera friðvænlegt, litríkt og samkeppnishæft.

Kæru landsmenn. Nú þurfum við að horfa til langrar framtíðar og huga að málefnum almenns launafólks, ekki síst ungu fólki. Ungt fólk er okkar dýrmætasta auðlind. Í dag getur það valið sér allan heiminn að vettvangi og það er síður en svo sjálfgefið að Ísland verði fyrir valinu. Það þarf örugga vinnu, góða opinbera þjónustu, fjölbreytta afþreyingu en það þarf líka að búa einhvers staðar. Þetta fólk mun bera uppi samneyslu framtíðarinnar og það er hörmulegt hvernig við ætlum að nesta það út í þetta ferðalag.

Það er ótrúlegt að hvorki í stjórnarsáttmálanum né í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra skuli húsnæðismál gerð að forgangsatriði. Uppbygging langtímaleigumarkaðar sem ekki byggir á gróðasjónarmiðum fyrirtækja er forgangsmál. Það verður að grípa strax til aðgerða og koma í veg fyrir að ungar fjölskyldur lendi á vergangi vegna rándýrs og ótryggs leigumarkaðar.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Atvinnulífið er að taka stakkaskiptum. Tæknibyltingin mun hafa meiri áhrif á líf okkar en flesta grunar. Mörg almenn störf munu heyra sögunni til og verða framkvæmd af tölvum eða vélum. Smjörþefinn finnum við þegar við innritum okkur í flug, greiðum fyrir vörur í IKEA eða notum heimabankaþjónustu. Það er mikilvægt að gæta þess að ágóði af þessari hagræðingu renni einnig til samfélagsins en ekki bara í hendur fyrirtækjaeigenda, sem myndi ýta undir enn ójafnari skiptingu eigna og fjármagns. Allar rannsóknir sýna að þau störf sem þó verða áfram unnin af mönnum munu krefjast sérhæfingar og menntunar. Það er því nauðsynlegt fyrir velgengni okkar og hamingju að hér verði áfram mikil atvinnuþátttaka og því væri það mikil skammsýni ef við tækjum þessa hluti ekki alvarlega.

Vanfjármagnað menntakerfi er ekki leiðin til þess. Við þurfum að aðlaga skólastarfið að þessari nýju framtíð. Í henni verður menntun hluti af tilveru einstaklingsins alla ævi, með einhverjum hætti. Þeir dagar eru liðnir að ungur einstaklingur komi út á vinnumarkaðinn með prófskírteini í hönd og öruggan lykil að framtíðinni. Atvinnulífið mun í auknum mæli kalla eftir skapandi og hugmyndaríkum einstaklingum, með frumkvæði og þá eiginleika verðum við að byrja að styrkja strax í grunnskóla. Þetta mun vissulega kosta mikið af peningum en við höfum ekki efni á að spara í þessu.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Lítil þjóð hefur ekki efni á því að standa í ára- og áratugalöngum innbyrðis deilum. Skipting arðs af náttúruauðlindum er dæmi um mál sem verður að nást sátt um og ekki síður ákvæði í stjórnarskrá sem tryggir eignarrétt þjóðarinnar yfir auðlindunum. Annað og einfaldara mál, sem er furðulegt að ekki hafi náðst að leiða til lykta, er staðsetning flugvallar í Reykjavík. Á sama tíma og við landsbyggðarfólk eigum réttmæta kröfu um gott aðgengi að stjórnsýslu, heilbrigðis- og menntakerfi og menningu höfuðborgarinnar, verðum við líka að virða og skilja sjónarmið Reykvíkinga. Umræðan um þétta og skilvirka byggð er ekki einungis spurning um öryggis- og heilbrigðismál, heldur líka umhverfismál. Með skynsamlegri uppbyggingu þéttbýlis eigum við einna mest að sækja í loftslagsmálum og loftslagsmál eru einhver mikilvægustu mál samtímans.

Höfuðborgin þarf á sterkri landsbyggð að halda en landsbyggðin þarf líka á kraftmikilli höfuðborg að halda. Mannkyn sem hefur náð að koma sér til tunglsins hlýtur að geta leyst einfalt, tæknilegt úrlausnarefni af þessum toga þannig að allra sjónarmiða sé gætt. Sérstaklega þegar lausn í því máli getur beinlínis falið í sér ávinning fyrir alla ef við höldum rétt á spöðunum. Þingið getur heldur ekki legið endalaust í skotgröfunum. Í grundvallaratriðum erum við mjög ósammála um margt og við skulum endilega takast á um það. En sé hins vegar horft til úrslita kosninganna ætti þingið þó að geta náð breiðri sátt í mikilvægum málum. Ég nefni umhverfis- og loftslagsmál, stjórnarskrármálið, málefni flóttamanna og sjávarútvegsmál.

Við Íslendingar, kæru landsmenn, getum vel búið við sömu kjör og aðstæður og frændur okkar á Norðurlöndunum. Í samstarfi við systurflokka okkar og verkalýðshreyfinguna höfum við greint hvað það er sem einkennir norræna velferðarmódelið og hvernig við getum styrkt það á nýrri öld. Við þurfum að huga að þremur grunnstoðum: Velferðinni, þar sem hið opinbera tryggir jöfn tækifæri allra, skipulögðum vinnumarkaði, þar sem launafólk, atvinnurekendur og hið opinbera eru sameiginlegir aðilar að kjarasamningum, og ábyrgri efnahagsstjórn.

Því miður hafa stjórnvöld á liðnum árum glatað tækifærum til þess að koma á friði á vinnumarkaði með því að reka hér hægri sinnaða skatta- og velferðarpólitík. Allt bendir til þess að ný ríkisstjórn muni feta sömu slóð. Áfram verði sem sagt vegið að velferðinni.

Ríkisstjórnin gefur ekki skýr fyrirheit um hvernig á að takast á við vanda þúsunda barna sem búa við skort, húsnæðisvanda ungs fólks eða aukna misskiptingu í samfélaginu. Við þetta verður ekki unað.

Kæru landsmenn. Íslenskir jafnaðarmenn hafa unnið stóra áfangasigra. Lög um verkamannabústaði, almannatryggingar, jöfn laun karla og kvenna og Lánasjóður íslenskra námsmanna eru dæmi um réttarbætur þar sem þeir lögðu styrkasta hönd á plóginn. Þá er ótalið framlag okkar í þágu viðskiptafrelsis og opnari samskipta við önnur ríki.

Hæstv. forseti. Kæru landsmenn. Þótt við jafnaðarmenn séum tímabundið agnarlítill þingflokkur munum við berjast áfram fyrir hugsjónum okkar: Fyrir almannahagsmunum, gegn sérhagsmunum, og af alefli gegn því að lýðræðið láti í minni pokann fyrir auðræði.