146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:18]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Björt Ólafsdóttir) (Bf):

Virðulegi forseti. Góða Alþingi. Bjartari morgnar eða áburðarverksmiðja. Kæri hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson. Í vali milli ólíkra áherslna felst ekki kvöl heldur frelsi. Það á að vera leiðarstef hverrar ríkisstjórnar að búa í haginn fyrir framtíðina og fyrir komandi kynslóðir. Stjórnmál á Íslandi hafa of oft birst sem viðbragðakennd og oft eru menn í fáti að bregðast við orðnum hlut; fjármálakreppu, umhverfisvá eða yfirfullum spítala. Svona atburðir dúkka upp á yfirborðið þegar besta leiðin til úrlausnar er löngu útrunnin. Besta leiðin er framsýni og forvarnir, hvort sem um ræðir heilbrigðiskerfi, fjármálaumhverfi eða umhverfi og náttúruvernd. Best væri að vinna okkar stjórnmálamanna færi öll í það að undirbyggja betra samfélag, vera skrefi á undan uppákomunum, svo framtíð komandi kynslóða sé minna sem óskrifað blað en frekar vandlega undirbúin og vörðuð.

Loftslagsbreytingar af mannavöldum eru staðreynd. Við vitum að hlýnandi sjór við Íslandsstrendur og súrnun sjávar með tilheyrandi áhrifum á fiskstofna eru afleiðingar loftslagsbreytinga. Við sjáum jöklana okkar bráðna og minnka að umfangi frá ári til árs. Við vitum ekki hvort Golfstraumurinn muni halda styrk sínum og stefnu og gera landið byggilegt áfram. En við vitum hvað þarf að gera til að bregðast við þessari óheillaþróun. Það er ekki í boði að bíða með það. Við verðum að draga stórfellt úr losun gróðurhúsalofttegunda með öllum tiltækum ráðum. Binda aukið magn kolefnis úr andrúmslofti í jarðvegi og gróðri. Við verðum líka að draga úr auðlindasóun. Þetta er ekki ný umræða. Hún hefur átt sér stað á alþjóðavettvangi allt frá því Brundtland-skýrslan, sem kom út árið 1987, setti fram hugtakið sjálfbær þróun. Hlutirnir hafa þokast hægt síðan en ég bind miklar vonir við að Parísarsamkomulagið verði til þess að hraða verulega viðbragðsaðgerðum á heimsvísu.

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Ég geng bjartsýn til verka í umhverfis- og auðlindaráðuneytinu. Björt framtíð er grænn flokkur sem vill að umhverfis- og náttúruvernd verði grunnstef í allri stefnumótun stjórnvalda, hvort sem það er á sviði auðlindanýtingar, menntunar, velferðar eða lýðheilsu. Við viljum fylgja sjálfbærnimarkmiðum Sameinuðu þjóðanna til að efla velsæld og velferð allra íbúa landsins. Við viljum innleiða grænt lágkolefnishagkerfi á Íslandi sem byggir á sjálfbærri nýtingu náttúruauðlinda, fullnýtingu afurða og öflugri nýsköpun á sviði líftækni og hugvits. Það er gleðiefni að þessi leiðarstef eru gegnumgangandi í stjórnarsáttmála nýrrar ríkisstjórnar. En til að þetta megi verða þarf öflugt samstarf og þverpólitíska sátt um leiðir að markmiðum.

Stefnuyfirlýsing þessarar ríkisstjórnar boðar að umhverfis- og náttúruverndarmál skuli skipa veigamikinn sess næstu árin. Þar ber hæst að ekki verður efnt til nýrra ívilnandi fjárfestingarsamninga vegna uppbyggingu á mengandi stóriðju. Það er þó alveg ljóst að allir ráðherrar verða að vinna saman að því að uppfylla aðgerðaáætlun í loftslagsmálum svo Ísland geti staðið við alþjóðlegar skuldbindingar sínar hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda.

Ég mun beita mér fyrir því að sjálfbær auðlindanýting verði í hávegum höfð í starfi þessarar ríkisstjórnar og að virði afurða auðlinda verði aukið með betri nýtingu, ekki með aukinni ásókn.

Ég mun sömuleiðis fylgja því fast eftir að ráðstöfun nýtingarréttinda í auðlindum í opinberri eigu verði gagnsæ. Eigendastefna verði gerð fyrir Landsvirkjun þar sem m.a. verði markmið um að hámarka virði orkunnar og að fyrirtækið starfi í góðri sátt við íslenska náttúru og landsmenn.

Náttúruvernd verður sömuleiðis gert hátt undir höfði á þessu kjörtímabili. Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða verði lögð fyrir Alþingi til samþykktar.

Það er mér einnig sérstök ánægja að nefna að við munum vinna heildstæða áætlun um vernd miðhálendisins og stefna að myndun hálendisþjóðgarðs í kjölfarið. Það þarf að gera í samtali og sátt við ýmsa aðila og við höfum þegar hafist handa. Þá eru ýmis óleyst friðlýsingarmál sem ég mun beita mér fyrir að leiða til lykta, til að mynda friðun Kerlingarfjalla og Þjórsárvera.

Virðulegi forseti. Það heyrist stundum að Ísland sé svo lítið í samhengi þjóða að okkar athafnir skipti ekki miklu máli. Ég er ósammála. Allt skiptir máli. Lítið samfélag í gjöfulu landi hefur alla burði til að bregðast hraðar við en þau sem stærri eru. Við getum og eigum að setja okkur markmið um að vera í fararbroddi á alþjóðavettvangi hvað varðar samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda, í náttúruvernd og í að aðlaga okkur að lágkolefnishagkerfi framtíðarinnar. Við eigum að vera landið sem aðrar þjóðir horfa til og læra af. Þannig leggjum við helst okkar af mörkum í því alþjóðlega og sameiginlega verkefni að vernda jörðina fyrir komandi kynslóðir.

Gangi okkur öllum sem best. Góðar stundir.