146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:46]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Kæru landsmenn. Þakklæti er mér efst í huga í kvöld. Þakklæti fyrir að hafa fengið að alast upp í gjöfulu lýðræðisríki og fyrir að fá að búa hér í öryggi á varhugaverðum tímum. Þakklæti fyrir að fá að vera borgari í réttarríki þar sem frelsi einstaklingsins og mannréttindi eru í hávegum höfð.

Það eru forréttindi að fá að vinna frjálslyndum málefnum brautargengi á tímum þegar frjálslyndi á undir högg að sækja í heiminum og sótt að því bæði frá hægri og vinstri. Kjósendur Viðreisnar í Suðurkjördæmi fólu mér að berjast fyrir frjálslyndum málum á Alþingi. Ég tek það umboð mjög alvarlega. Ég get sagt þeim og öðrum landsmönnum með stolti að sú stefna sem birtist í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er sú frjálslyndasta sem nokkru sinni hefur verið boðuð í upphafi kjörtímabils hér á landi. Þetta er stjórnarsáttmáli þar sem sett eru þau meginmarkmið að Ísland eigi að vera eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar, sáttmáli sem fjallar sérstaklega um mikilvægi mannréttinda, jafnréttis, umhverfisverndar, sem fjallar sérstaklega um mikilvægi athafnafrelsis, viðskiptafrelsis og alþjóðlegrar samvinnu. Þetta er sáttmáli sem allir frjálslyndir Íslendingar geta verið stoltir af.

Frelsi fylgir ábyrgð. Alþingi er m.a. treyst fyrir því að fara eins vel með almannafé og kostur er. Staðreyndin er sú að meiri hluti landsmanna kaus flokka sem annaðhvort töluðu fyrir óbreyttri eða lægri skattheimtu. Það sýnir okkur að landsmenn vilja að farið sé af ábyrgð með þá fjármuni sem þeir greiða í opinbera sameiginlega sjóði og að innviðir, heilbrigðisþjónusta og menntun verði í forgangi næstu árin. Þeim sjálfsögðu væntingum mun þessi ríkisstjórn standa undir.

Um leið ber okkur að sýna fyrirhyggju. Við þurfum að búa í haginn fyrir mögulega efnahagslega niðursveiflu. Ef það tekst þá verða hugsanleg áföll eða áskoranir í þjóðarbúskapnum ekki jafn erfið og raun hefur borið vitni. Við eigum að sýna metnað og einsetja okkur að komast vel undan vetri með skýrri framtíðarsýn og vandaðri áætlanagerð.

Framtíðarsýn. Framtíðarsýn er nauðsynleg í efnahags- og peningamálum en ekki síður í utanríkismálum enda málaflokkarnir nátengdir. Ísland er eyland, en þó alls ekki í þeirri merkingu að það geti þrifist í einangrun. Öryggi og velmegun Íslendinga byggist algerlega á jákvæðum og virkum samskiptum samfélagsins í heild við grannríki og umheiminn.

Það gleymist oft að þessi samskipti snerta nánast alla þætti í daglegu lífi okkar. Við getum farið frjáls og áhyggjulaus ferða okkar vegna þess að bandalagsríki tryggja frið og stöðugleika í okkar heimshluta. Greiðar samgöngur byggja á milliríkjasamningum líkt og öll fjarskipti og viðskipti. Þá eru grundvallarmannréttindi einnig skilgreind og varin í samstarfi við önnur ríki. Þátttaka Íslands við gerð slíkra samninga og varðstaða um íslenska hagsmuni byggist á því að fullveldi landsins sé tryggt.

Eitt af þeim verkfærum sem Íslendingar hafa til að standa vörð um fullveldið og til að verja hagsmuni sína er skilvirk utanríkisþjónusta. Nánast allir gildandi milliríkjasamningar sem Ísland á aðild að hafa verið gerðir og eru framkvæmdir með þátttöku utanríkisþjónustunnar, en hún er gríðarlega mikilvægt tæki til að efla sóknina og hagsmunagæsluna á alþjóðavettvangi.

Hæstv. forseti. Góðir landsmenn. Sem smáríki verður Ísland að fylgjast öðrum betur með þróun og horfum í alþjóðamálum og sigla á milli skerja í því brimróti sem blasir við á næstu áratugum. Smáríki á borð við Ísland geta ekki varið fullveldi sitt með efnahagslegu eða hernaðarlegu bolmagni. Ísland getur aðeins varið fullveldi sitt með trúverðugleika. Þess vegna skiptir öllu máli að við höldum vel á spöðunum. Við þurfum að halda áfram að byggja upp ímynd okkar á alþjóðavettvangi, bæði sem fullgilds þátttakanda í alþjóðaviðskiptum og samherja í samstarfi innan þeirra alþjóðastofnana sem við erum aðilar að. Þá þurfum við einnig að halda áfram að byggja upp jákvæða en jafnframt raunsæja sjálfsmynd. Það gerum við m.a. með ábyrgri efnahagsstjórn, uppbyggingu öflugra innviða í almannaþágu og góðum stjórnarháttum. — Góðar stundir.