146. löggjafarþing — 17. fundur,  24. jan. 2017.

stefnuræða forsætisráðherra og umræður um hana.

[21:58]
Horfa

Theodóra S. Þorsteinsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Ég ætla að leyfa mér að vera bjartsýn í þessum ræðustól í kvöld. Ég vil koma til starfa á Alþingi með trú og von um góðan árangur, von um gott samstarf við allt það fólk sem þjóðin valdi til ábyrgðar.

Flestir flokkar töluðu um breytt vinnubrögð í aðdraganda kosninga og að traust þyrfti að ríkja um störf helstu lykilstofnana og fyrirtækja samfélagsins. Vantraust hefur ríkt og uppgjör efnahagshrunsins er ekki lokið. Við erum enn að endurskoða ákvarðanir, aðgerðir og eftir atvikum aðgerðaleysi sem hafði mikil áhrif á líf einstaklinga hér á landi. Skuldastaða margra fyrirtækja og heimila stökkbreyttist. Fólk hætti allt í einu að vera lántakendur og viðskiptavinir í banka og varð skuldarar með greiðsluvanda. Sumir fengu leiðréttingu án mikillar fyrirhafnar, en aðrir gátu ekki og höfðu ekki efni á að verjast og misstu mikið. Sumt af því verður aldrei bætt.

Það sem hægt er að bæta er hins vegar margt og vinnubrögð stjórnmálamanna er eitt þeirra. Nú er nefnilega tækifæri til að láta verkin tala og standa við stóru orðin. Okkur verður að auðnast að yfirvinna aðferðafræði gömlu stjórnmálanna þar sem hagsmunir stjórnmálaflokka, einstakra stjórnmálamanna og vildarvina þeirra voru teknir fram yfir hagsmuni heildarinnar.

Hér á þingi verður okkar að auðnast að vinna saman sem ein heild um málefni og hagsmuni almennings en ekki hrökkva strax í skotgrafir sem snúast um krepptan hnefa, gífuryrði og að slá pólitískar keilur. Umbjóðendur okkar hafa engan áhuga á að við stöndum hér inni og berjum okkur á brjóst yfir að hafa unnið slag sem snerist um völd. Þeir vilja sjá okkur leysa verkefni sem blasa við og gera það vel.

Nú er tækifæri til að skapa fyrirmyndarlandið sem forsvarsmönnum sumra stjórnmálaflokka hefur verið tíðrætt um. Nú er tækifæri til að þingmenn allra flokka sýni þá samstöðu sem þjóðin kallar eftir. Nú er tækifæri til að allir flokkar starfi í anda umbóta og sátta.

Virðulegi forseti. Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Viðreisnar og Bjartrar framtíðar leggur hér af stað með verðug markmið um uppbyggingu grunnþjónustu og samfélagslegra innviða. Ég ber þá von í brjósti að við náum sátt um að móta skýra stefnu í mikilvægum málaflokkum eins og t.d. heilbrigðisþjónustu, menntamálum, ferðamálum, umhverfismálum og útlendingamálum, að við náum að snúa við þeirri þróun að hér sé eilíft verið að bregðast við vanda eftir að hann kemur upp. Við eigum að vera fyrri til og vera viðbúin þegar vandinn kemur upp. Best væri ef við gætum komið í veg fyrir hann. Við gerum það ekki öðruvísi en með því að skoða stöðu okkar og rýna inn í framtíðina, vinna eftir skýrri stefnumörkun sem allir hafa komið að. Við eigum að greina viðfangsefnin, skilgreina þjónustu, setja okkur markmið og búa til leiðir saman.

Í mínum huga eru þingmenn og stjórnmálaflokkar ekki annaðhvort með eða á móti. Við erum ekki við og þið. Við erum öll í sama liði. Okkur var falið mikilvægt verkefni þar sem hagsmunir þjóðarinnar liggja undir, ekki hagsmunir stjórnmálaflokka eða okkar þingmanna. Mörg þeirra verkefna sem finna má í stefnuyfirlýsingu og í þeim þingmálum sem lögð verða fram á vorþingi eru mál sem allir flokkar lögðu ríka áherslu á í aðdraganda kosninga. Nú mun reyna á það hvort þeim flokkum sem ekki eiga aðild að núverandi ríkisstjórn var alvara með þeim yfirlýsingum um að vinnubrögð í stjórnmálum þörfnuðust yfirhalningar.

Þingmenn Bjartrar framtíðar hafa ekki annað í hyggju en að eiga gott samstarf við alla flokka á þingi hér eftir sem hingað til. Þannig og bara þannig getum við fundið bestu mögulegu lausn mála. Það er einlæg von mín að aðrir þingmenn séu sama sinnis. Ég ætla mér að vinna af heiðarleika í þessu samstarfi þriggja flokka sem myndað hafa meiri hluta og samstarf við þá flokka sem ekki eiga aðild að ríkisstjórn. Ég vil að þjóðin geti treyst mér. Ég vil að þjóðin geti treyst valdhöfum og helstu lykilstofnunum samfélagsins. Ég vil að menn komi hér hreint fram og tengi sig hagsmunum þjóðarinnar sem kaus okkur til valda. Þannig og aðeins þannig náum við árangri.