146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla um aflandseignir og brot á siðareglum.

[15:10]
Horfa

Ari Trausti Guðmundsson (Vg):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að óska hæstv. forsætisráðherra alls góðs í störfum sínum. Þegar litið er til umræðunnar um svokölluð Panama-skjöl og nú nýlega til skýrslu um eignir Íslendinga í aflandsfélögum og viðbragða við henni vakna spurningar um inntak eðli siðareglna í stjórnmálum. Fullyrða má að almennt sé samkomulag um að ávallt verði að meta hvort tiltekin gjörð telst brot á siðareglum eða ekki, enda liggur það í augum uppi. Þegar kemur að viðbrögðum, bæði þess sem á í hlut og margra utan þings, jafnvel innan, gegnir öðru máli. Það virðist nokkuð útbreidd skoðun á eðlilegum viðbrögðum að augljóst brot á siðareglum sé aðeins brot í raun og veru ef ásetningur er fyrir hendi. Með öðrum orðum: Ef ég t.d. tilkynni ekki hlutabréfaeign mína, upp um hana kemst og ég afsaka siðareglubrotið og segi það mistök er brotið ekki afgreitt sem brot. Eða hvað? Augljóslega er hvorki hægt að sanna gleymsku á mig né ásetning og sama gæti átt við um mjög mörg brot á siðareglum. Ég tel þetta viðhorf til eðlis siðabrota rangt. Brotið er brot sama hvernig það bar að, sama hvað ég segi og reyni að snúa stöðunni mér í hag.

Til þess að fá viðhorf á hreint nú þegar siðareglur ráðherra eru á borði nýrrar ríkisstjórnar, og þá ræddar í samfélaginu vegna meðferðar hæstv. forsætisráðherra á áfanga- eða aflandsfélagaskýrslunni eins og hún heitir, spyr ég hann sem leiðtoga ríkisstjórnar hver skilningur hans sé á viðbrögðum við broti á siðareglum, eins og ég hef lýst, og hvort hann telji að ávallt verði ásetningur eða brotavilji að vera ljós ef á að vera hægt að geirnegla siðareglubrot, jafnt ráðherra sem þingmanna. Að lokum, þriðja spurning: Telur ráðherra að hann hafi brotið siðareglur sem lúta að því að ráðherra beri að koma upplýsingum á framfæri sem varða almenning?