146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

uppfylling kosningaloforða.

[15:17]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Frú forseti. Í nokkrum ræðum á Alþingi í gær var fjallað töluvert um vinnubrögð og ný vinnubrögð. Menn töluðu um að byggja brýr. Mér fannst þetta málflutningur sem var vert að taka mark á. Og að menn ynnu þvert á meiri hluta og minni hluta.

Ein af þeim sem flutti ágæta ræðu var þingmaður og formaður þingflokks Bjartrar framtíðar, hv. þm. Theodóra S. Þorsteinsdóttir. Hún sagði, með leyfi forseta:

„Í mínum huga eru þingmenn og stjórnmálaflokkar ekki annaðhvort með eða á móti. Við erum ekki við og þið. Við erum öll í sama liði. Okkur var falið mikilvægt verkefni þar sem hagsmunir þjóðarinnar liggja undir, ekki hagsmunir stjórnmálaflokka eða okkar þingmanna. Mörg þeirra verkefna sem finna má í stefnuyfirlýsingu og í þeim þingmálum sem lögð verða fram á vorþingi eru mál sem allir flokkar lögðu ríka áherslu á í aðdraganda kosninga. Nú mun reyna á það hvort þeim flokkum sem ekki eiga aðild að núverandi ríkisstjórn var alvara með þeim yfirlýsingum um að vinnubrögð í stjórnmálum þörfnuðust yfirhalningar.“

Þess vegna langar mig að spyrja hæstv. heilbrigðisráðherra hvort sá ásetningur gildi líka um þá þingmenn sem tilheyra stjórnarmeirihluta Bjartrar framtíðar, þ.e. að standa við kosningaloforð. Ég er þó einkum að kalla eftir því hvernig þingmenn Bjartrar framtíðar munu nálgast tillögur og frumvörp sem munu koma fram frá stjórnarandstöðunni og eru í samræmi við áherslumál þess flokks í aðdraganda kosninga. Ég get nefnt frumvarp um greiðsluþátttöku sjúklinga sem mun koma fram, um áframhaldandi vinnu við gerð stjórnarskrár í samræmi við niðurstöður stjórnlagaráðs, að þjóðin fái sjálf að ákveða áframhaldandi ESB-viðræður og kerfisbreytingar í sjávarútvegi.

Hin spurningin er svo: Eru þingmenn Bjartrar framtíðar bundnir á einhvern hátt í stjórnarsamstarfinu til að greiða atkvæði gegn gefnum loforðum eða með teknu tilliti til hvenær tillögur koma fram?