146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

[15:32]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að óska nýjum umhverfisráðherra til hamingju með embættið og óska henni velfarnaðar í hennar mikilvægu störfum.

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er talað um að gera aðgerðaáætlun í loftslagsmálum en því miður þá koma þar engin töluleg markmið fram, hvorki um hversu mikið eigi að draga úr losun né heldur fyrir hvaða tíma þeim eigi að ná. Þessi tölulegu markmið komu hvorki fram í stefnuræðu hæstv. forsætisráðherra né í ræðu hæstv. umhverfisráðherra hér í gær. Ég vil því spyrja hæstv. umhverfisráðherra: Hver er stefna ríkisstjórnarinnar í raun og veru í loftslagsmálum? Ætlar ríkisstjórnin að fylgja stefnu Evrópusambandsins um að draga úr losun um 40% fyrir árið 2030? Eða ætlar hún jafnvel að setja fram metnaðarfyllri markmið, sem væri virkilega þess virði að fagna hér? Við því langar mig að fá svör hjá hæstv. umhverfisráðherra.