146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

aðgerðaáætlun í loftslagsmálum.

[15:36]
Horfa

Rósa Björk Brynjólfsdóttir (Vg):

Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra þessi svör þótt ekki hafi komið fram nein svör við því sem ég var að spyrja um, hver töluleg markmið nýrrar ríkisstjórnar í loftslagsmálum eru í stjórnarsáttmála. Það kom ekki fram í svörum hæstv. umhverfisráðherra, því miður. Töluleg markmið eru ekki algjör útlistun heldur grunnur, nauðsynlegur grunnur að loftslagsáætlun, í aðgerðaáætlun í loftslagsmálum. Það er eitt og hið sama.

Það var áhugavert sem hæstv. ráðherra minntist á varðandi skýrslu sem Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var fengin til að vinna um stöðu loftslagsmála á Íslandi. Þessi skýrsla og vinna við hana hófst fyrir um einu og hálfu ári síðan, eða um mitt ár 2015. Ef hæstv. umhverfisráðherra hefur séð þessa skýrslu og talar um hana í ræðustól er þá ekki kominn tími til þess að birta okkur hana og fara að vinna eftir henni, eða hvað? Hvenær hyggst hæstv. ráðherra birta skýrsluna og færa okkur tíðindin upp úr henni?