146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[15:44]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Benedikt Jóhannesson) (V):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur fyrir þessa fyrirspurn og fyrir að vekja athygli á þeirri afar mikilvægu skýrslu sem unnin var síðasta haust. Skýrslan hefur orðið til þess að ég hef viljað grípa til víðtækra ráðstafana og undirbúa þær vel. Það mun koma fram í svari mínu.

Hv. þingmaður spyr til hvaða frekari rannsókna ætlunin sé að leggjast í til að kortleggja þann vanda sem aflandsfélög Íslendinga í skattaskjólum eru. Í skýrslu starfshópsins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum eru lokaorðin þessi, með leyfi forseta:

„Ljóst er að þær tölur sem hér eru kynntar eru einungis bráðabirgðaniðurstöður og mun ítarlegri greiningar er þörf áður en fullur skilningur skapast á þeirri óvissu sem um þetta efni ríkir, svo ekki sé talað um að óyggjandi niðurstöður fáist.“

Ég reikna með að þau lokaorð séu tilefni fyrirspurnarinnar og frekari rannsóknir myndu án efa skýra þá mynd betur, gefa nákvæmari tölur og þá myndum við sjá betur einstaka efnisþætti sem hægt væri að greina frekar. Í það verður ráðist.

Hins vegar er skýrslan og niðurstöður hennar með öllum sínum óvissuþáttum verðmætt innlegg til að grípa til aðgerða á hinum ýmsu sviðum án þess að frekari gerninga sé þörf. Sameiginleg sýn, stefnumótun og framkvæmd, jafnt milli stofnana innan skattkerfisins og utan þess — með aðkomu viðeigandi ráðuneyta þar sem til þarf til að ganga í það verk innan tafar. Aðrir efnisþættir skýrslunnar kalla eins og fyrr segir á frekari spurningar og rannsóknir áður en ákvörðun verður tekin um aðgerðir.

Ég vil hins vegar taka það sérstaklega fram að margt af því sem kemur fram í skýrslunni er háð mikilli óvissu. Við munum aldrei geta svarað því með fullkominni vissu hvert umfang þessara undanskota er og hve stór hluti af þeim fjármunum hefur í raun og veru verið talinn fram vegna þess að við vitum einungis þann hluta af svarinu. Við vitum hvað var talið fram en við vitum ekki það sem ekki var talið fram þó að menn reyni að nálgast það með þeim hætti sem í skýrslunni er gert.

Í öðru lagi spyr hv. þingmaður til hvaða aðgerða verði gripið til að bæta skattframkvæmd og skatteftirlit. Ég hef nú þegar á mínum fyrstu dögum í ráðuneytinu heimsótt þrjár stofnanir sem annast almenna skattframkvæmd. Ég hef farið til ríkisskattstjóra sem annast álagningu opinberra gjalda og skatteftirlit, skattrannsóknarstjóra sem fer með skattrannsóknir og tollstjóra sem fer með innheimtu opinberra gjalda. Að mínu viti er það nauðsynlegur undanfari þess að gera frekari úrbætur á skattkerfinu. Ég mun fylgja þessum heimsóknum eftir með bréfi til allra stofnananna þar sem lýst verður nánar stefnuyfirlýsingu stjórnvalda um það hvernig við hyggjumst vinna að samstilltu átaki og fá tillögur stofnananna þar um.

Það er mjög mikilvægt að þær ræki sín lögbundnu verkefni í samræmi við markmið stjórnarsáttmálans um að skatteftirlit verði eflt og unnið verði markvisst gegn skattundanskotum, þar með talið skattaskjólum.

Í því sambandi er líka rétt að vekja athygli á tillögum samráðsvettvangs um aukna hagsæld að einfalda skattkerfið og stuðla að hagkvæmari tekjuöflun ríkissjóðs. Þær tillögur eru nú þegar í virkri skoðun hjá sérfræðingum ráðuneytisins.

Í síðasta lagi er spurt hvort ráðherra teldi það vera forgangsmál að efla þetta. Ég get svarað því að þetta er forgangsmál. Það er forgangsmál að vinna gegn skattundanskotum, vinna gegn skattaskjólum og vinna gegn svarta hagkerfinu. Ég tel að innviðir stjórnkerfisins séu nægilega sterkir til þess. Fjármálaráðuneytið mun undir minni stjórn efla það skatteftirlit sem verið hefur og vinna gegn þessari óværu með öllum þeim krafti sem mögulegur er.