146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[15:57]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda og hæstv. ráðherra fyrir þessa sérstöku umræðu. Engin sátt getur verið um feluleik og siðleysi sem fylgir skattaskjólum. Ég fagna orðum hæstv. fjármála- og efnahagsráðherra sem hann lét falla í ræðu í gær, að fara eigi gegn skattaskjólum og skattsvikum af fullri hörku og nú áðan að málið væri forgangsmál hjá ríkisstjórninni. Eins ógeðfelldar og upplýsingarnar voru sem fylgdu Panama-skjölunum og hve sláandi það var að sjá að svo margir Íslendingar notfærðu sér skattaskjól, hve margir Íslendingar nýttu sér gallað regluverk og veikt eftirlit til að velta byrðum yfir á aðra og fela peninga sína fyrir skattinum þá fylgdi þeim líka gagnleg umræða um skattamál. Fleiri veltu því fyrir sér hvað skattsvik hefðu í raun í för með sér á þjónustu ríkisins við þá sem þurfa á þjónustunni að halda, á heilbrigðisþjónustuna og skólana, löggæsluna, vegina, sjúkraflutninga, svo dæmi séu tekin. Mikilvægi réttlátra skatta og að allir tækju þátt í uppbyggingu velferðarsamfélagsins komst á dagskrá í almennri umræðu.

Í skýrslunni um eignir Íslendinga á aflandssvæðum er bent á að stjórnvöld þurfi að horfast í augu við það að skilgreining, utanumhald og eftirfylgni með söfnun gagna er vinnuaflsfrek starfsemi og að kostnaður hafi hingað til verið hraplega vanmetinn. Nefnt er að ársreikningaskrá og peningaþvættisskrifstofa hafi mátt sæta ámælum fyrir ófullnægjandi vinnubrögð vegna þessa.

Við jafnaðarmenn höfum lagt á það áherslu í þessu sambandi að tryggja þurfi mannafla til að sinna eftirliti og rannsóknum á sviði skattamála. Það á við um ríkisskattstjóra en einnig um skattrannsóknarstjóra. Í umræðu á síðasta þingi lögðum við meðal annars til að sett yrði almennt ákvæði í skattalöggjöf sem gæfi skattayfirvöldum heimild til að kaupa hvers konar gögn sem upplýst gætu um skattsvik. Það hefði fælingarmátt í för með sér. Við fluttum líka þingsályktunartillögu um að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattaríkjum. (Forseti hringir.) Ég mun fjalla um þá tillögu í seinni ræðu minni.