146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[16:02]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V):

Frú forseti. Það er afar mikilvægt að þau mál sem skýrslan fjallar um verði tekin föstum tökum sem og baráttan gegn skattsvikum og ekki síður svartri atvinnustarfsemi. Mér þótti hæstv. fjármálaráðherra tala býsna skýrt í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra í gær og eins í ræðu sinni áðan þegar hann boðaði stríð gegn svarta hagkerfinu og skattaskjólunum. Það er mjög gott og mikilvægt.

Skýrslan sýnir glöggt hve brýnt er að regluverk, gagnasöfnun og eftirlit sé ávallt eins og best verði á kosið. Á því hefur verið misbrestur. Innviðirnir sem stuðst er við, gögnin, gagnagrunnarnir og skil gagna eru lykilatriði til þess að hægt sé að fylgjast með fjármagnshreyfingum á milli landa. Til framtíðar er nauðsynlegt að fylgja fast eftir alþjóðasamstarfi og alþjóðareglum sem varða þessi málefni.

Alþjóðlegt samstarf er nauðsynlegt. Við verðum að taka fullan þátt í því. Það er sérstaklega mikilvægt að við fylgjumst með og lærum af löggjöf og starfi eftirlitsstofnana og gagnasöfnunar, t.d. annars staðar á Norðurlöndunum. Manni dettur alltaf í hug frændur okkar Danir sem við lærum nú margt gott af. Við þurfum að tryggja að við séum alltaf með á nótunum um alla framþróun á þessu sviði en séum ekki mörgum árum á eftir í viðspyrnu eins og dæmin sýna. Því það er bara eitt sem við getum verið algerlega viss um: Þeir sem vilja skjóta sér undan skyldum sínum í þessum efnum eru býsna fundvísir á nýjar leiðir til þess.