146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[16:11]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Frú forseti. Það skiptir mjög miklu máli að Alþingi sendi skýr skilaboð um að við séum tilbúin til að veita ríkisstjórninni heimild til þess að taka þátt í alþjóðlegum aðgerðum gegn notkun skattaskjóla. Þau skilaboð mættu vera í anda þeirrar þingsályktunartillögu sem Samfylkingin lagði fram á síðasta þingi þar sem Árni Páll Árnason var 1. flutningsmaður. Í þeirri tillögu var lagt til að ríkisstjórninni yrði falið að beita sér fyrir alþjóðlegum viðskiptaþvingunum gagnvart lágskattaríkjum í þeim tilgangi að sporna við flutningi fjármagns þangað þar sem erfitt getur reynst að afla upplýsinga og skattleggja með eðlilegum hætti þann hagnað og eignir sem til eru hjá félögum sem skráð eru í lágskattaríkjum.

Samtök jafnaðarmanna í Evrópu hafa sett fram tillögur að aðgerðum sem hafa það að markmiði að sporna við starfsemi skattaskjóla. Tillögurnar fela m.a. í sér gerð upplýsingaskiptasamninga milli Evrópusambandsríkja og milli allra ríkja sem hafa gengist undir kvaðir OECD um upplýsingaskipti um skatta og fjárhagsmálefni og að þau ríki sem ekki eru tilbúin til þess að gangast undir slíka samninga og kvaðir verði beitt þvingunum. Þá er lagt til að skylda fjármálafyrirtæki til að skila upplýsingum til skattyfirvalda um reikninga í ríkjum utan Evrópusambandsins sem ekki eru tilbúin til þess að gangast undir slíkar kvaðir eða samninga og að efla gagnsæi og upplýsingagjöf um félög sem skráð eru utan Evrópusambandsins en starfa innan svæðisins, t.d. um hverjir eru raunverulegir eigendur þeirra, aðgerðir gegn peningaþvætti verði styrktar, að fjölþjóðleg fyrirtæki sem starfa innan Evrópusambandsins þurfi að gefa upp allar tekjur sínar til skatts og að styrkt verði refsilöggjöf varðandi aðstoð banka og annarra við skattundanskot.

Við ættum að horfa til þess sem önnur lönd eru að gera í þessu sambandi og setja nýjar reglur sem tryggja að við fáum þær skatttekjur sem okkur ber. Ég skora á hæstv. ráðherra að vera virkur í alþjóðlegu samstarfi um málefnið.