146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

skýrsla starfshóps um eignir Íslendinga á aflandssvæðum og tekjutap hins opinbera.

[16:14]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Frú forseti. Ég þakka fyrir þessa umræðu og þakka hæstv. ráðherra fyrir þau svör sem hann gaf hér, svo langt sem þau náðu. Ég kalla eftir skýrari svörum. Hæstv. ráðherra segir: Það verður ráðist í frekari rannsóknir. Hverjar verða þær? Mun ráðherra sjálfur standa fyrir því að skipaður verði nýr starfshópur til þess að vinna frekar með þær spurningar sem lagðar eru fram í skýrslunni? Mun verða kallað eftir samráði við Alþingi og efnahags- og viðskiptanefnd vegna þessara rannsókna? Verður farið í ólíkar rannsóknir þannig að t.d. þunn eiginfjármögnun, sem ég nefndi hér áðan, verði skoðuð sérstaklega? Það viljum við fá að heyra frá hæstv. ráðherra.

Hæstv. ráðherra segir að mat hans sé að innviðir stjórnkerfisins séu nægjanlega sterkir til að takast á við vandann. En eigi að síður kemur fram í skýrslunni þar sem einmitt er farið utan um innviðina, þ.e. gögnin og skráninguna, að ekki liggi fyrir í raun og veru hvort þessir innviðir séu nægjanlega sterkir. Það segir meira að segja að sums staðar hafi þegar verið tekið á þessum málum en annars staðar sé það verkefni enn fyrir höndum. Við viljum fá upplýsingar um það hvað þarf að bæta í innviðina og hversu mikið fjármagn þarf til þess þannig að við getum svarað þessu með fullnægjandi hætti.

Ég vil nefna það hér að þrátt fyrir að norrænir bankar annars staðar á Norðurlöndum hafi boðið upp á sams konar þjónustu og innlendir bankar varð þróunin ekki með þessum hætti. Stundum talar fólk hér á Íslandi, hv. þingmenn og stjórnmálamenn um, að allt snúist þetta um að lækka skatta, að við þurfum að vinna einhverja skattasamkeppni til þess að fjármagnið fari ekki úr landi. En bíddu — berum okkur saman við Norðurlöndin þar sem eru til að mynda hærri skattar á fyrirtæki, hærri skattar á einstaklinga, en samt gerist þetta ekki þar. Þetta er því augljóslega ekki svarið við aflandsvæðingunni og það eru a.m.k. mikilvægar upplýsingar sem koma fram í skýrslunni. Þá hljótum við að horfa til þess að við þurfum að gera betur í innviðunum.

Hér hafa þegar verið gerðar nokkrar breytingar á löggjöf. En auðvitað hljótum við að kalla eftir skýrri sýn um það: Þarf að gera frekari breytingar á löggjöf? Hvaða innviði þarf að styrkja (Forseti hringir.) sem nefndir eru í skýrslunni? Hvernig verður það fjármagnað, frú forseti?