146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:19]
Horfa

Logi Einarsson (Sf):

Herra forseti. Mig langar að eiga orðastað við hæstv. félags- og jafnréttisfulltrúa — velkominn í salinn

(Forseti (SJS): Ráðherra.)

ráðherra — vegna húsnæðismála sem eru í býsna alvarlegu ástandi í augnablikinu. Lítið var talað um þau í kosningabaráttunni af einhverjum ástæðum. Þau eru í algeru öngstræti. Gríðarlegur vandi steðjar þar að.

Verð á höfuðborgarsvæðinu er mjög hátt og á sama tíma er skortur á leiguíbúðum. Séu menn yfir höfuð svo heppnir að geta þefað uppi leiguíbúð er verðið fólki oft ofviða. Margir hafa því hvorki getað keypt né leigt og ungt fólk sér ekki fram á úrlausn þessara mála á næstu árum. Við vitum að ástandið á leigumarkaði getur haft mjög alvarlegar afleiðingar. Rannsóknir sýna að leigjendur eru miklu líklegri til að eiga í fjárhagsvandræðum og börn leigjenda eru líka miklu líklegri til að búa við fátækt og skort.

Fasteignaverð á höfuðborgarsvæðinu hefur hækkað um 65% frá árinu 2011. Aðstæður stórra hópa sem ekki eiga húsnæði hafa versnað mikið. Fólki í húsnæðisleit býðst einfaldlega ekki sanngjörn lausn í augnablikinu.

Svar síðustu ríkisstjórnar var leiðrétting á húsnæðislánum sem virtist færa ríkasta hlutanum tugi milljarða, keyrði upp fasteignaverð, en aðrir sátu eftir með sárt ennið.

Niðurstaðan er að fólk sem hefur ekki fast húsnæði hrökklast á milli staða, börn eru á hrakhólum og vergangi á milli skólahverfa, sífellt verið að slíta þau burt frá vinum og ættingjum. Það er auðvitað óboðlegt.

Fyrir tilstuðlan verkalýðshreyfingarinnar náðist hins vegar mikilvægur árangur við gerð kjarasamninga 2015. Þá var samið um stofnstyrki til uppbyggingar á almennum leigumarkaði. Lítið er minnst á þessi mál í stjórnarsáttmálanum. Mig langar að vita: Verður við þetta staðið að fullu fram til 2019?

Vaxtastig er hér með því hæsta sem gerist, sem gerir málið ekki einfaldara. Auðvitað væri ein leið til að lækka það sú að ganga í Evrópusambandið og taka upp evru. Sú leið er nú ekki í boði hjá núverandi ríkisstjórn að minnsta kosti. Því hlýtur maður að spyrja: Hvernig hyggst ríkisstjórnin gera atlögu að hinu háa vaxtastigi? Viðreisn talaði um myntráð fyrir kosningar. Er það uppi á borðinu eða eru menn að leita annarra leiða?

Til langs tíma verður húsnæðislánakerfið að vera öruggt og fyrirsjáanlegt og tryggja lántakendum fjölbreytt lánsform og hagstæð kjör. Það þarf að auka fjárhagslegt og lagalegt jafnræði milli ólíkra búsetuforma og fjölga valkostum á húsnæðismarkaði. Það verður að vera þannig að húsnæðisöryggi sé tryggt og það sé ekki áhættusöm fjárfesting. Í dag er það að eignast íbúð því miður miklu líkara því að taka þátt í rúllettu, jafnvel rússneskri rúllettu.

Eins og áður sagði þurfum við að byggja upp fjölbreyttan og öruggan leigumarkað og fjölga búseturéttaríbúðum með fjárhagslegri aðkomu hins opinbera. Það er mikilvægt að vinna áfram að útfærslu þessara lausna í nánu samstarfi við verkalýðshreyfinguna.

Samfylkingin hefur lengi talað fyrir því og lagt fram mál um að útleiga einnar íbúðar í langtímaleigu í eigu einstaklinga verði skattfrjáls. Það er nokkuð skilvirk leið til að auka framboð á leiguíbúðum og ná þeim aftur úr ferðamannaleigu og á almennan markað. Í aðdraganda kosninga talaði Samfylkingin fyrir bráðaaðgerðum sem fólust í því að kaupendur eða leigjendur gætu fengið vaxtabætur greiddar út fyrir fram til fimm ára við fyrstu kaup. Slíkt hefði tryggt sambúðarfólki 3 millj. kr. í útborgun, einstæðu foreldri 2,5 millj. kr. og einstaklingi 2 millj. kr. Við töldum að það gæti hjálpað á óöruggum leigumarkaði og komið fólki yfir þennan þröskuld því að það er svo mikil þverstæða sem felst í því að það er jafnvel dýrara að búa í leiguhúsnæði en að eiga húsnæði, þ.e. ef menn geta skrapað saman í útborgun og eignast húsnæði. Þar með er ég ekki að segja að við eigum ekki fyrst og fremst að byggja upp þroskaðan leigumarkað til framtíðar.

Mig langar að heyra í ráðherra, hvort hann geti fullvissað þingheim um að staðið verði við samkomulagið þar sem kveðið er á um 2.300 almennar leiguíbúðir fyrir árið 2019 og spyrja hann hvernig hann taki í hugmyndir Samfylkingarinnar sem ég nefndi hér áðan.