146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:30]
Horfa

Orri Páll Jóhannsson (Vg):

Herra forseti. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er ekki einu orði minnst á leigumarkaðinn eða húsnæðismál yfir höfuð. Að hafa þak yfir höfuðið þykir sjálfsagt í hinum vestræna heimi en staðan á húsnæðismarkaðnum hérlendis, eins og reyndar fram hefur komið, er verulega þröng, sérstaklega hjá ungu fólki og tekjulágum.

Sú séreignarstefna sem rekin hefur verið á Íslandi hefur veruleg áhrif á möguleika ungs fólks og tekjulágra til að tryggja sér þak yfir höfuðið. Ljóst er að umtalsverð hækkun fasteignaverðs á seinustu árum hefur torveldað þessum hópi að eignast sína fyrstu fasteign. Þá er ástandið á leigumarkaði bágborið sem að stórum hluta má rekja til aukinna umsvifa í ferðaþjónustu.

Hlutfall útborgaðra launa heimilis sem varið er til greiðslu fasteignalána hefur farið hækkandi undanfarin ár eins og fram kemur í nýjasta efnahagsyfirliti VR. Samkvæmt því er þetta hlutfall í dag að jafnaði 20–21% en var 18% stuttu eftir efnahagshrunið. Fram kemur í tölum frá Hagstofunni að á tíu ára tímabili, frá 2004–2015, var hlutfall ungs fólks í foreldrahúsum hæst árið 2015, eða um 40%. Þetta eru sterkar vísbendingar um að æ erfiðara sé fyrir ungt fólk að kaupa sína fyrstu íbúð, fólk sem gjarnan er í hópi tekjulágra einstaklinga.

Það er mikilvægt að styðja við uppbyggingu húsnæðis á félagslegum forsendum í samvinnu við verkalýðsfélög og sveitarfélög. Í skýrslu Velferðarvaktarinnar frá því í janúar 2015 eru lagðar fram tillögur um aðgerðir til þess að vinna bug á fátækt. Ein þessara tillagna varðar húsnæðismál en Velferðarvaktin leggur til að létt verði á útgjöldum efnalítilla fjölskyldna og einstaklinga sem búa við íþyngjandi húsnæðiskostnað. Velferðarvaktin mælist jafnframt til þess að greiðslur þessa hóps verði vel undir 40% af ráðstöfunartekjum hans, hvort heldur er á leigumarkaði eða með búseturétti.

Til samanburðar má geta þess að frændur okkar Danir, sem við höfum nokkuð minnst á hér í dag, miða við að kostnaður íbúa vegna leigu sé um það bil 20% af tekjum fjölskyldna eftir skatta. (Forseti hringir.) Ef Ísland á að verða eftirsóknarvert fyrir alla þá sem vilja taka þátt í að byggja upp íslenskt samfélag til framtíðar, eins og segir í stjórnarsáttmála, þarf að marka skýra stefnu í húsnæðismálum, hvar ungt fólk og tekjulágir eru í forgrunni.