146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:35]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P):

Virðulegi forseti. Heimurinn verður alþjóðavæddari með degi hverjum. Ungt fólk hefur margt hvert búið í mörgum löndum og vill eiga þess kost að flytja sig á einfaldan hátt með litlum fyrirvara. Tækifærin úti í hinum stóra heimi eru ótæmandi. Þess vegna skiptir öllu máli fyrir land og þjóð að stutt sé við Íslendinga sem vilja nýta sér þessi tækifæri því að það mun að endingu gagnast okkur öllum.

Þar kemur styrking leigumarkaðarins inn. Það þarf að vera raunhæft, stöðugt og öruggt að leigja. Það að kaupa steypuklump er ekki lengur draumur allra og á margan hátt getur það verið óskynsamlegt. Til þess að fjölskyldur og ungt fólk geti varið dögum sínum og árum á leigumarkaði verður að vera raunhæfur kostur að búa í sama húsnæðinu á meðan börnin vaxa úr grasi og ganga í sama skóla. Það að búa í leiguhúsnæði á ekki að minnka lífsgæðin. Margir sem kaupa í dag eru eingöngu að leita eftir stöðugleika fyrir fjölskyldur sínar svo börnin geti notið öryggis meðal jafnaldra sem þau þekkja vel. Til að þetta megi verða þarf að búa til hvata til að gera langtímasamninga, t.d. með skattkerfinu, og styrkja þannig rétt leigjenda. Einnig er mikilvægt að gagnsæi við gerð leigusamninga sé aukið sem og skilningur leigjenda á réttindum sínum.

Herra forseti. Ég hef á mínum stutta ferli sem leigjandi á Íslandi komist að því að það er gífurlegt ójafnvægi á milli leigusala og þeirra sem leigja. Réttarvitund leigjenda er mjög bág og réttarstaða þeirra í raun líka. Því vil ég nota þetta tækifæri til að spyrja hæstv. ráðherra hvað standi til að gera til að bæta réttarstöðu leigjenda og fræða þá betur um réttindi sín. Ég hef komist að því í samskiptum mínum við aðra leigjendur sem lent hafa í svipuðu veseni og ég við leigusala sem ganga freklega á þeirra rétt að fólk er ekki meðvitað um réttindi sín. Ég spyr: Stendur til að gera langtímastefnumótun fyrir leigumarkaðinn þannig að fólk geti verið þar til langs tíma? Hvað á að gera til að efla réttindi og rétt fólks á leigumarkaði?