146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:42]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil leyfa mér að þakka fyrir þessa umræðu sem er þörf. Þetta er brýnt málefni sem brennur á svo mörgum.

Ef hægt er að segja að eitthvað sé hjartans mál jafnaðarmanna er það húsnæðismálin. Í nær hundrað ár höfum við barist fyrir umbótum á því sviði meðal landsmanna, að tryggja barnafjölskyldum, ungu fólki og efnalitlum hópum tryggt og öruggt húsnæði. Merki þess má sjá víða í samfélaginu, bæði frá fyrri tímum og á seinni árunum. Húsnæðisöryggi, óháð efnahag, er forsenda jafnra tækifæra og almennrar velferðar.

Í efnahagshruninu komust fjölskyldur í hundraðatali á vonarvöl, voru flæmdar á vergang. Tækifæri til að stofna öflugan leigumarkað var því miður ekki notað þegar Íbúðalánasjóður eignaðist óhemjumagn af íbúðarhúsnæði. Því er það þyngra en tárum taki að horfa upp á það neyðarástand sem nú ríkir og hefur gert í allnokkur ár. Það sætir líka furðu að í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar er ekki stafkrók að finna um þetta brýna málefni.

Ástæður fyrir þessu erfiða ástandi eru margvíslegar. Ein þeirra er sú að byggingar lágu niðri um tíma eftir hrun og almennt íbúðarhúsnæði er í kjölfarið á miklu flóði ferðamanna nú nýtt sem gistirými hér, sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. En húsnæðisvandi er líka tilfinnanlegur á landsbyggðinni og stendur vexti, viðgangi og fjölgun fyrir þrifum. Það er áskorunarefni hvernig við leysum úr því. Það verður ekki mögulegt að koma við hefðbundnum markaðslausnum þar.

Við vonumst til þess að ríkisstjórnin beiti byggðastefnu sinni, sem er auðvitað framúrstefnuleg, því að þetta er alltumfaðmandi (Forseti hringir.) ríkisstjórn sem mun taka á þessu með skörungsskap.