146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:45]
Horfa

Jóna Sólveig Elínardóttir (V):

Virðulegi forseti. Mig langar að byrja á að þakka hv. þm. Loga Einarssyni fyrir að fara fram á að við eigum sérstaka umræðu um húsnæðismál. Þetta er gríðarlega mikilvægur málaflokkur og nauðsynlegt að stjórnvöld styðji við hann með kerfisbundnum hætti svo að hér fáist þrifist fjölskylduvænt samfélag sem stenst samanburð við önnur norræn ríki. Einmitt þar skipta húsnæðismálin mjög miklu.

Það er alveg ljóst í mínum huga að þegar kemur að því að tryggja samkeppnishæf lífskjör hér á landi skiptir lykilmáli að við komum skikki á vaxtastigið í landinu, sem ég tel að við séum öll sammála um að sé allt of hátt og hefur það komið fram í ræðum fjölmargra þingmanna.

Við erum nefnilega í þeirri stöðu hér á landi að vegna of hás vaxtastigs endar fólk á því að þurfa að greiða fyrir húsnæði sitt, ekki bara tvisvar sinnum heldur nærri því þrisvar sinnum. Þetta er óboðlegt, sér í lagi ef við horfum til þess að í nágrannalöndunum greiðir fólk almennt ekki oftar fyrir húsnæði sitt en í eitt og hálft skipti. Þess vegna — einmitt þess vegna — hefur ríkisstjórnin lagt mikla áherslu á það í stjórnarsáttmálanum að við endurskoðum peningastefnuna með það að markmiði að ná stöðugu gengi, sem aftur skilar sér í lægra vaxtastigi. Lægra vaxtastig skilar sér síðan í lægri greiðslubyrði á húsnæðislánum, sem skilar sér í hærri ráðstöfunartekjum, ekki aðeins fyrir einstaklinga og fjölskyldur heldur skilar lægra vaxtastig sér til fyrirtækja og að síðustu til ríkissjóðs. Lægri vaxtabyrði ríkissjóðs þýðir síðan að við höfum úr meiru að spila inn í t.d. samgöngukerfið, inn í heilbrigðiskerfið, inn í velferðarkerfið og menntakerfið.