146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:51]
Horfa

Ásta Guðrún Helgadóttir (P):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka málshefjanda fyrir þessa gífurlega mikilvægu umræðu, enda eru húsnæðismálin í algjörum ólestri á Íslandi. Við erum að tala um að Ísland er það Evrópuríki ásamt Noregi þar sem hlutfall séreigna er hvað hæst, af því að hér hefur verið rekin svokölluð séreignarstefna. Á sama tíma og rekin er séreignarstefna sjáum við að þær íbúðir sem eru á leigumarkaðnum hafa í mun ríkari mæli farið inn í það sem er kallað deilihagkerfið, eða Airbnb. Deilihagkerfið væri nú alveg ágætisfyrirbæri ef ekki væri fyrir þann vankant að þetta er orðið venjulegt kapítalískt kerfi. Samkvæmt tölum eru fleiri þúsund íbúðir á höfuðborgarsvæðinu notaðar undir Airbnb í hverjum mánuði, sér í lagi í 101 þar sem við erum alltaf að tala um þéttingu byggðar, þar sem við erum alltaf að tala um að unga fólkið vilji búa, þar eru litlar íbúðir, þar eru stórglæsilegar gamlar íbúðir frá upphafsárum Reykjavíkur þegar hún var að verða að borg. Þessar íbúðir eru mestmegnis notaðar fyrir Airbnb nú til dags. Þetta er vandamál. Það er vandamál þegar við erum farin að líta á heimili fólks sem pening í fjárhættuspilum. Þegar það að eiga heimili er eitthvað happa og glappa. Það að geta haldið heimili þarf að vera yfir það hafið að vera hluti af séreignarstefnu eða fjárglæpastarfsemi, þannig lagað séð, eins og mikið af þessu Airbnb-dæmi er, þar sem ekki mikið af því er gefið upp til skatts. En (Forseti hringir.) við þurfum að endurhugsa hvað það þýðir að eiga heimili. Það þýðir ekki endilega að eiga eignina sjálfur. Það þýðir að vera öruggur um að geta haldið heimili á sama stað næstu tvö, þrjú árin.