146. löggjafarþing — 18. fundur,  25. jan. 2017.

húsnæðismál.

[16:58]
Horfa

félags- og jafnréttismálaráðherra (Þorsteinn Víglundsson) (V):

Virðulegur forseti. Ég þakka enn og aftur fyrir mjög góða umræðu um þessi mál. Hér er tæpt á ansi mörgu. Ég ætla að reyna að spóla hratt yfir.

Það hefur komið ágætlega fram að við glímum við framboðsvanda, við þurfum að taka á honum. Það þarf að auka lóðaframboð, sérstaklega á suðvesturhorni. Það er alveg rétt að þeim vanda er ekki til að dreifa víða á landsbyggðinni. Það er hins vegar svo að við höfum séð að fasteignaverð á heitari svæðum á landsbyggðinni er að hækka mjög skarpt, þannig að sumu leyti er þetta að mætast; byggingakostnaður og aftur markaðsverð, sem gerir þá kleift að byggja nýjar íbúðir á landsbyggðinni líka.

Það er svo margt í þessu. En það sem okkur vantar, og ég tek undir með hv. þm. Loga Einarssyni, eru smærri íbúðir. Hér er búið að tala í átta ár um að okkur vanti smærri íbúðir en það hefur sáralítið verið byggt af þeim.

Við eigum að endurhugsa hvernig við byggjum og búum, sérstaklega fyrir ungt fólk. Af hverju getum við ekki byggt íbúðir í anda t.d. námsmannaíbúða eða stúdentaíbúða á almennum markaði, hvort sem er til leigu eða eignar? Þarna eigum við að hrista upp í hlutunum og hugsa upp á nýtt. Mikilvægt er að taka á þeim þætti.

Mín trú er sú að opinber stuðningur eigi að beinast til þeirra sem þurfa raunverulega á honum að halda. Við eigum ekki að dreifa honum of flatt út. Við eigum að styðja við lágtekjufjölskyldurnar sem þurfa hvort sem er að vera í félagslegu húsnæði eða í næsta skrefi en aðrir með ráðstöfunartekjur eiga auðveldlega að geta ráðið við fasteignakaup eða leigu og eiga ekki að njóta opinbers stuðnings til þess.

Við eigum að auka sveigjanleikann í þessu. Við eigum ekki að gera greinarmun milli leiguhúsnæðis og eignarhúsnæðis. En það má samt alveg hafa í huga að til lengri tíma litið, í langtímabúsetu, er eign betri en leiga. Það er einfaldlega svo. Það er lægri greiðslubyrði. Hins vegar þarf að vera sveigjanleiki þarna líka fyrir þá sem eru að hugsa sér til flutnings, mögulega til annarra landa, annarra landsvæða, að hafa aðgang að leiguhúsnæði þegar þörf er á.

Ég held að ég komist ekki lengra í þessari umræðu en við munum (Forseti hringir.) fylgjast grannt með þróuninni. Húsnæðismálin eru mjög ofarlega á baugi í ráðuneytinu og munu verða áfram.